Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði mark Íslands í 1-1 jafntefli liðsins gegn Belgíu á Evrópumótinu í fótbolta í dag. Berglind segist hafa þurft að vinna upp eigið klúður en markvörður Belga varði frá henni vítaspyrnu fyrr í leiknum.

Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu á 29. mínútu eftir að boltinn fór í hönd Belga inni í teig. Berglind Björg fór á punktinn en markvörður Belga, Nicky Evrard, varði. „Ég eiginlega veit ekki hvað ég á að segja, ég þarf bara að gera betur,“ sagði Berglind í viðtali eftir leik. Hún segir leikinn hafa verið gríðarlega erfiðan og fjörugan og það sé fúlt að hafa ekki sótt sigur.

Mark Íslands kom á 50. mínútu en þá skallaði Berglind boltann í netið eftir góða fyrirgjöf Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. 

„Ég þurfti að vinna upp fyrir þetta klúður þarna. Bara mjög gaman að skora...Léttir og geggjað móment að fagna með stuðningsmönnunum,“ segir Berglind um markið.  

Berglind segir varnarleik liðsins í leiknum heilt yfir góðan og sóknarlega voru þær að koma sér í góðar stöður. „En við þurfum bara að nýta færin betur og við erum að fara að fínpússa okkur fyrir næsta leik,“ segir Berglind. 

Viðtalið við Berglindi í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan. Næsti leikur Íslands á EM er gegn Ítalíu á fimmtudag.