Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu í alla nótt við að tryggja að ekki flæddi yfir þjóðveginn í miklum vatnavöxtum í Skagafirði. Varnargarðar við veginn eru ónýtir á fimm kílómetra kafla.
Eyðilegging á fimm kílómetra kafla
Í Skagafirði var mikill viðbúnaður í alla nótt þar sem unnið var að því að hemja Djúpadalsá og halda henni í farvegi sínum. En mikið hefur rignt á svæðinu síðustu daga og ár á svæðinu eru að fyllast.
Unnið var í alla nótt með þremur beltavélum og einni hjólaskóflu við að reyna að verja varnargarða og efnishauga sem voru í hættu. Einnig þurfti að verja þjóðveginn frá því að áinn flæddi þar yfir að sögn Stefáns Öxndal Reynissonar, eftirlitsmanns hjá Vegagerðinni á Sauðárkróki.
„Þetta eru varnargarðar sem eru í raun ónýtir á einhverjum 5 kílómetrum sennilega og bara farvegurinn að Djúpadalsánni er bara orðinn yfirfullur af efni aftur sem var kominn í nokkuð gott lag eftir uppmokstur í þrjú fjögur ár.“
Ekki hefur verið lagt mat á umfang skemmda en gera má ráð fyrir að það kosti tugi milljóna að endurbyggja þá varnargarða sem eyðilögðust.
Óvenjulegt að flæði í mörgum ám í einu
Stefán segir að oftast nær flæði í einni á í einu. „En þetta voru bara allar árnar í gærkvöldi og í nótt. Það hjálpaði ekki til að Héraðsvötnin voru líka full og það var smá tappi fyrir Djúpadalsánna líka.“
Enn er talsvert vatnsmagn í ánum og þær kolmórauðar. Fyrirséð er að mikil vinna verður við að búa aftur til farveg fyrir Djúpadalsá svo pláss verði fyrir næsta flóð. En nú er einungis unnið að því að halda ánni í skefjum þar til aðstæður verða betri.
„En það er aðeins kaldara núna þannig að ég ætla að vona að það fari aðeins að minnka í ánni þannig að við getum farið að sjá hvað við eiginlega þurfum að gera mikið hérna,“ segir Stefán.