Sumarið 2004 fékk arkitektinn Þórarinn Þórarinsson óvenjulega fyrirspurn þegar ítalski verkfræðingurinn Giancarlo Gianazza bað hann um að aðstoða sig við að leita að hinu heilaga grali á hálendi Íslands. Í hlaðvarpsþáttunum Leitinni er fjallað um þetta ævintýralega ferðalag sem staðið hefur yfir í tæp tuttugu ár.
Í tuttugu ár hefur farið fram leit á íslenska hálendinu að hinu heilaga grali. Þóra Hjörleifsdóttir rithöfundur er annar umsjónarmaður nýrra hlaðvarpsþátta sem bera heitið Leitin sem hún og Halla Ólafsdóttir gerðu saman um ævintýrið.
Svaraði kalli hetjunnar að finna fjársjóð
„Þetta er þáttaröð sem fjallar um frænda minn, Þórarinn Þórarinsson, sem er arkitekt,“ segir Þóra á Morgunvaktinni á Rás 1. Sumarið 2004 barst Þórarni óvenjuleg fyrirspurn þegar ítalski verkfræðingurinn Giancarlo Gianazz bað hann að aðstoða sig við leitina að hinu heilaga grali á hálendi Íslands, nánar tiltekið uppi á Kili.
„Margir hafa heyrt af þessu verkefni því þetta er búið að vera í gangi mjög lengi,“ segir Þóra. „En samt er þetta saga sem enginn veit nákvæmlega út á hvað gengur.“ Þóra hefur alltaf vitað af því að frændi hennar legði upp í ævintýri upp á hálendi á hverju sumri en vissi aldrei almennilega hvað gekk þar á. „Og svo var það fyrir nokkrum árum síðan sem ég fór að setja mig alveg inn í þetta og fór að hitta frænda minn og hann sagði mér betur frá þessu.“
Þóra segir að þættirnir fjalli um í raun og sannleik um þetta ferðalag. „Frá því að bankað er upp á hjá honum og kallið kemur til hetjunnar, að fara og finna á fjársjóð,“ segir Þóra. „Og mögulega er hann uppi á Kili.“
„Og þetta er rosalega spennandi hvernig þessi hugmynd kemur til hjá þeim,“ segir Þóra. Þórarinn sé mikill áhugamaður um Íslendingasögurnar og hefur grúskað í þeim áratugum saman. Að sama skapi er ítalski verkfræðingurinn virkilega spenntur fyrir ítölsku málverkunum og rithöfundinum Dante. „Það eru til alls konar kenningar um að í ítölsku renaissance-málverkunum séu falin einhver skilaboð. Eins og Da Vinci Code-bókin fjallaði mikið um.“
Giancarlo hefur stúderað málverkin og Gleðileik Dantes og telur sig hafa fundið faldar vísbendingar að fjársjóðskorti. Hann hafi reiknað út hnit sem leiddu hann að afmörkuðum stað á Íslandi en þá vantaði hann samstarfsmann með sér í verkefnið. „Þannig að þættirnir eru um þessa vegferð þeirra að finna þennan fjársjóð.“ Síðan séu alls konar vendingar og uppákomur sem eiga sér stað í þessari leit.
Óvenjulegt hlaðvarpsform
„Það sem vakti fyrir okkur Höllu þegar við vorum að gera þættina var að við vildum gera svona hlaðvarpsþætti eins og maður hefur svolítið hlustað á í erlendum miðlum,“ segir Þóra. Þær vildu ekki gera hlaðvarp líkt og rík dæmi eru fyrir um á Íslandi að fólk spjalli saman um daginn og veginn löngum stundum. „Heldur er þetta hlaðvarp þar sem er verið að miðla einhverri sögu,“ segir Þóra. Farið verður með hlustandann í ferðalag þar sem sagt er frá kenningum og hugleiðingum þessara tveggja manna. „Og svo erum við líka að spjalla um þetta okkar á milli og færum söguna áfram.“
Formið sé heldur ólíkt dæmigerðri Rásar 1-dagskrárgerð vegna þess að meira sé um talmál um leið og sögunni sé miðlað. „Við erum á einhverjum svona skemmtilegum nýjum útvarpsstað með þetta.“
Hlaðvarpsserían Leitin verður á dagskrá á laugardagsmorgnum kl. 10:15 í sumar en allir þættirnir eru aðgengilegir í spilara RÚV og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Rætt var við Þóru Hjörleifsdóttur á Morgunvaktinni á Rás 1. Viðtalið í heild er í spilaranum hér að ofan.