Nýlegar fréttir frá nágrannalöndunum af voðaverkum og árásum þar sem skotvopnum er beitt, nú síðast í Kaupmannahöfn og Ósló, hafa vakið upp spurningar um hvernig þessum málum sé háttað hérlendis.
Skotið var á bifreið feðga við leikskóla í Hafnarfirði nýverið og fyrir um einu og hálfu ári var karlmaður skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík.
Í Bandaríkjunum eru skotárásir alltíðar, síðast í gær létust sex og fjöldi fólks er særður eftir árás á skrúðgöngu í Highland Park, úthverfi Chicagoborgar, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna.
Beiting skotvopna í útköllum sérsveitar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, segir að stöðugt endurmat fari fram á þeirri hættu sem kunni að stafa af skotvopnum hérlendis. Lögregla sé í nánu sambandi við öryggis- og lögregluyfirvöld í nágrannalöndunum.
„Við sjáum það í útköllum sérsveitar að skotárásum er að fjölga eða notkun skotvopna, en það er hins vegar meiri aukning í notkun hnífa heldur en skotvopna.“
Sjá einnig: Telur að þurfi að endurmeta eftirlit með skotvopnum
Aukið eftirlit æskilegt
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningadeildar, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að mikilvægt væri að bæta eftirlit með skotvopnum hér á landi.
Sigríður Björk segir að nýtt og gagnsærra skotvopnaeftirlit sé á teikniborðinu sem geri yfirvöldum betur kleift að fylgjast með stöðunni. Þessu til viðbótar fari fram endurskoðun á vopnalöggjöfinni á vegum dómsmálaráðuneytisins.
„Við erum auðvitað mjög vakandi en auðvitað er hugur okkur hjá aðstandendum þessa fólks sem hefur látist. En ef við horfum bara á hættumatið almennt yfir Ísland, þá erum við í grunninn mjög örugg þjóð. Og við erum mjög lága áhættu fyrir hryðjuverk miðað við það sem gengur og gerist. En það eru þessir einstaklingar og möguleg voðaverk einstaklinga sem við höfum mestar áhyggjur af,“ segir Sigríður.
Fáliðun vandamál
Lögreglan sé undir þetta búin enda hafi sérþjálfun farið fram á síðustu misserum. Fjöldi lögreglumanna hafi þó lengi verið viðvarandi vandamál.
„Það sem hefur háð okkur mest í gegnum tíðina er hversu fá við erum og í langan tíma höfum við verið að óska eftir fleiri lögreglumönnum. Það er kannski mikilvægasta öryggisatriðið að við séum með sterkt og öflugt lið,“ segir Sigríður Björk.
Hún bætir við að nýverið hafi auknu fjármagni verið veitt í málaflokkinn og stefnt að því að tvöfalda nemendafjölda í lögregluskólanum á næstu árum.
Sjá einnig: Áhyggjuefni hve tíðar skotárásir eru orðnar á Íslandi
70 þúsund skráð skotvopn hérlendis
Greint var frá því í fréttum í gær að yfir 70 þúsund skotvopn eru skráð hérlendis. Þetta er næstmesta skotvopnaeign á Norðurlöndum en aðeins Finnar eiga fleiri skráð skotvopn en Íslendingar.
Sigríður segir þetta veiðimenn annars vegar og hins vegar safnara sem eigi fleiri en eitt skotvopn, jafnvel fjölda skráðra vopna. Ekki komi fram mörg óskráð vopn í aðgerðum lögreglu, enn sem komið er, að sögn Sigríðar.
„Það er náttúrlega þannig að við erum með óvopnaða lögreglu á Íslandi og þess vegna er sérsveitin mikilvæg. En við megum samt ekki gleyma því að almennir lögreglumenn fara líka á vettvang og sérsveitin er að þjóna lögregluliðunum á landinu þar sem þau eru kölluð til sem sérfræðingar,“ segir ríkislögreglustjóri.
Í spilaranum hér að ofan má hlusta á viðtal við Sigríði Björk á morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.