Tvö stór fótboltamót voru haldin á Akureyri um helgina. Á öðru þeirra sýndu efnilegustu leikmenn landsins listir sínar en á hinu leikmenn sem í flestum tilvikum eru komnir af léttasta skeiði. Bætt var við mannskap á bráðamóttöku sjúkrahússins til að taka á móti fótboltamönnum.
Ekkert aldurshámark
2000 börn, aðallega strákar, á aldrinum ellefu til tólf ára kepptu á móti sem KA heldur. Pollamót Þórs var haldið á sama tíma en keppendurnir voru talsvert eldri.
Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, segir að met hafi verið slegið í ár en aldrei hafa fleiri lið tekið þátt eða 68 lið og 800 keppendur. Bæði konur og karlar tóku þátt í mótinu sem haldið var í 35. skipti.
Tuttugu ára og eldri geta tekið þátt í mótinu en ekkert er aldurshámarkið.
„Það er nefnilega þannig að hugurinn gefur svo lítið eftir. Líkaminn gefur eftir en hugurinn segir mönnum að gera það sem þeir gátu fyrir 20 árum,“ segir Reimar og viðurkennir að fótboltameiðsli séu nokkuð algeng á Pollamótinu.
Bæta við mannskap á bráðadeildinni
Zoe Rochford, forstöðulæknir á bráðamóttöku segir alltaf mikið að gera þessar fótboltahelgar. „Við bættum við auka sérfræðingi á vaktina um helgina vegna aukaálags sem skýrist helst af minni háttar fótboltameiðslum.“
Álagið á bráðamóttöku var með mesta móti á meðan mótin stóðu yfir. Bæði fótboltamenn og fylgdarlið þurfa að sækja læknisþjónustu þannig að heimsóknir á bráðamóttöku voru margar.
„Yfirleitt eru öklameiðsl algengust en einnig úlnliðsmeiðsl og nokkrir fara úr axlarlið.“ segir Zoe.
Hlutfallslega koma mun fleiri af Pollamótinu en af krakkamótinu og segir Zoe að þeim eldri komi margir óþjálfaðir á mótið þannig að þeim er mun hættara við meiðslum.
Fótbolti á daginn - partí á kvöldin
Stóru pollarnir voru þó ekki eingöngu mættir til að spila fótbolta.
„Jú, við erum í fótbolta á daginn og partí á kvöldin og svo ætlum við að ljúka þessu með 1200 manna balli með Páli Óskar í Boganum á laugardagskvöldið,“ segir Reimar.