Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningadeildar, segir að þurfi að huga ætti betur að eftirliti með skotvopnum hér á landi. Reynt sé að fylgjast með torkennilegri hegðun á samfélagsmiðlum.
Telur þú að árásirnar í Noregi og Danmörku kalli á sérstakan viðbúnað hér á landi?
„Við erum sífellt að meta viðbúnaðarstig lögreglu á Íslandi, það er í sífelldu verkefni, það er metið dags daglega“, sagði Runólfur.
Runólfur segir að lögreglan hafi breytt áherslum á undanförnum árum, bætt búnað, aukið fræðslu lögreglumanna og eflt viðbragðsáætlun til að tryggja öryggi landsmanna.
Þessir atburðir síðustu daga kalla ekki á sérstök viðbrögð?
„Ég ítreka að lögreglumenn og stjórnendur lögreglu eru að meta viðbúnaðarskipulag lögreglu og það er bara sífellt verkefni sem er í stöðugri endurskoðun“ sagði Runólfur. „Við lærum af því sem nágrannaþjóðir okkar upplifa, þeim árásir sem verða þar.“
Íslensk lögregluyfirvöld vinna náið með lögreglu á Norðurlöndum.
Hafið þið tök á að fylgjast með umræðu á samfélagsmiðlum?
„Við gerum það eftir bestu getu og treystum líka á að almenningur geri það líka og bendi okkur á“ sagði Runólfur. „Það er mikilvægur partur af þessu að fá upplýsingar um það sem fólk telur óeðlilegt og gæti gefið vísbendingar um einhvers konar óeðlilega hegðun.“
„Við fáum ábendingar á hverjum degi og þær eru allar skoðaðar og áhættumetnar og í sumum tilvikum eru þær skoðaðar frekar“ sagði Runólfur. „Samkvæmt upplýsingum frá 1. janúar voru 77 þúsund vopn skráð í landinu, er of auðvelt að eiga byssu á Íslandi? Ég held að skotvopnalöggjöfin hjá okkur sé eitt af því sem við þurfum að skoða. Hún er tiltölulega ströng en síðan má velta fyrir sér hvort eftirlitið mætti vera öflugra. Það er eitthvað sem við þurfum að leggjast yfir“.