Það eru ekki bara börn sem hafa gaman af að leika sér með fjarstýrða bíla. Hjá Bílaklúbbi Akureyrar er starfrækt svokölluð RC-deild og þar hittist áhugafólk um fjarstýrða bíla og leikur sér saman.

„Við erum opin öllum sem vilja vera með og eigum meira að segja nokkra bíla sem hægt er að fá lánaða til að prófa. Við viljum endilega fá fleiri. Því fleiri, því skemmtilegra,“ segir Valdimar Geir Valdimarsson hjá Bílaklúbbi Akureyrar. Starfið í RC-deildinni snýst ekki bara um að leika sér. Þetta er líka keppnisgrein og reglulega eru haldin mót fyrir alla aldurshópa.

Á æfingasvæði bílaklúbbsins er verið að útbúa sérstakt svæði fyrir fjarstýrða bíla. „Hérna ætlum við að vera með tilbúnar brautir og líka grillaðstoöðu og þess háttar,“ segir Valdimar.

Ótrúleg útivera

„Þetta snýst um að fara aðeins út að keyra,“ segir Friðrik Högnason sem stundar þetta sport ásamt fimm ára syni sínum, Emanúel Mána.

„Það er ótrúleg útivera sem fæst bara af því að fara út í svona dund. Hann er fimm ára og það er ótrúlegt hvað hann getur keyrt á þessu.“

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.