Smásalar eru í startholunum að hefja netverslun með áfengi en halda að sér höndum á meðan regluverkið er óskýrt. Framkvæmdastjóri Hagkaups kallar eftir skýrum skilaboðum frá stjórnvöldum.
Netverslanir sem selja áfengi beint til neytenda hér á landi hafa sprottið upp hver af annarri undanfarið ár. Vefverslunin Heimkaup hóf að selja áfengi á dögunum. Til þess að geta það þurfti Heimkaup að stofna danskt félag sem heldur utan um áfengissöluna. Það sama gerði Sante sem reið á vaðið í þessum efnum. Sú netverslun er frönsk. Þetta hefur gerst án pólitískrar umræðu og án aðkomu löggjafans, þótt halda megi því fram að um eðlisbreytingu á áfengismarkaði sé að ræða.
Fjármálaráðherra sagði í kvöldfréttum í gær að skýra þyrfti lagaumgjörðina því núverandi regluverk hefði dagað uppi. Fleiri kalla eftir því.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir ósanngjarnt að lögum samkvæmt megi erlendar vefverslanir selja áfengi beint til íslenskra neytenda á meðan innlendar vefverslanir megi það ekki.
„Okkur finnst skrýtið að löggjafarvaldið sé ekki búið að skýra þetta betur og skilji lögin svolítið eftir í lausu lofti, þar sem menn eru að láta reyna á kerfið. Við höfum tekið þá stefnu að blanda okkur ekki í þann slag að vera á þessu gráa svæði. Við köllum frekar eftir skýrum fyrirmælum. Við ætlum inn á þennan markað en ætlum ekki að fjárfesta í ákveðnum innviðum í kringum þessa netverslun ef að stjórnvöld myndu síðan allt í einu afturkalla þessar reglur og breyta þeim.“
Skilaboð Sigurðar til stjórnvalda eru skýr.
„Ég segi við þá sem semja lögin í landinu: Komið þið með skýr skilaboð þannig við getum unnið eftir settum leikreglum. Þegar þau koma þá munum við taka þátt í þessum vöruflokki eins og öðrum vöruflokki á neytendamarkaði.“
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir að ekki standi til að hefja netverslun með áfengi á meðan regluverkið er á jafn gráu svæði og nú. Það sé heldur ekki forgangsmál og í því samhengi hafi Bónus aldrei selt tóbak. Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir verslunina fylgjast grannt með gangi mála og muni bregðast við þegar línur fari að skýrast.