Umboðsmaður skuldara segir hækkandi greiðslubyrði og aukinn framfærslukostnað hættulega blöndu og býst við að umsóknum fólks í fjárhagsvanda fjölgi í haust. Stjórnvöld þurfi að greina hvar neyðin er mest og koma til aðstoðar.

Umsóknum um aðstoð vegna fjárhagsvanda til umboðsmanns skuldara hefur ekki fjölgað. Það sem af er ári eru mánaðarlegar umsóknir í kringum fimmtíu til sjötíu, sem er svipað og á seinni helmingi síðasta árs.

„Auðvitað vill maður ekki vera mjög svartsýnn en það eru ýmsar blikur á lofti og við komum svolítið eftir á, en auðvitað hefur maður áhyggjur,“ segir Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Hættuleg blanda

Greiðslubyrði heimilanna hefur aukist með hækkun vaxta - samkvæmt útreikningum Íslandsbanka og ASÍ hafa afborganir hjá fjögurra manna fjölskyldu með óverðtryggt húsnæðislán hækkað um rúmlega áttatíu þúsund krónur á mánuði á einu ári. Ofan á það leggst aukinn framfærslukostnaður. Matarkarfa ASÍ hefur hækkað um fimm til sautján prósent á sjö mánuðum. „Þetta er svona kannski blanda sem er hættuleg.“

Hvenær búist þið þá við því að umsóknum fari að fjölga? „Það veit auðvitað enginn en ef fram fer sem horfir gæti það alveg verið með haustinu.“

Stjórnvöld þurfi að fylgjast með tekjulágum

Ásta segir erfitt að gefa fólki almenn ráð þar sem aðstæður fólks séu mismunandi. En nú þurfi fólk að fara yfir heimilisbókhaldið. „Það er mjög mikilvægt fyrir fólk að skoða - að reka heimili er eins og að reka fyrirtæki. Og hvar má draga saman seglin þótt að það sé ekki mjög vinsælt.“

Um 300 umsóknir hafa borist embættinu í ár, af þeim eru rúmlega 30% í vinnu, um 40% á örorkubótum og 20% atvinnulaus. Ásta segir að stjórnvöld þurfi að fylgjast vel með, sérstaklega þeim tekjulægstu. 

„Auðvitað hafa stjórnvöld gripið til ýmissa mótvægisaðgerða og ég veit að fjármálafyrirtækin eru líka að hjálpa fólki en þetta lítur ekki vel út að mínu mati.“

Þurfa stjórnvöld þá að gera meira? „Má ekki alltaf gera betur.“

Hvað finnst þér að þau ættu að gera? „Það er auðvitað eins og verið hefur í gegnum tíðina, þetta eru mismunandi aðgerðir. Það er hækkun barnabóta, það er sérstakur húsnæðisstuðningur. Það þarf svolítið að greina, hvar er best að aðstoða. “