Prófessor í félagsfræði segir það áhyggjuefni hve oft skotvopnum hefur verið beitt á undanförnum misserum, sérstaklega í ljósi þess að Ísland hefur ítrekað mælst ein friðsamasta þjóð heims. Mikilvægt sé að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun.

Óvenju margar skotárásir

Skotárás var framin í Hafnarfirði síðasta miðvikudag, en slíkar árásir hafa verið óvenju tíðar undanfarið. Síðasta ár var raunar nýhafið þegar skotið var skrifstofur stjórnmálaflokka hér á landi. Tæpri viku síðar var skotið á bíl borgarstjóra. Þá var karlmaður skotinn til bana við heimili sitt í Rauðagerði í febrúar. 

Í lok júní var karlmaður vopnaður byssu handtekinn við Samhjálp og í ágúst var maður skotinn af lögreglu og handtekinn eftir skotárás á Egilsstöðum. Þá var skotið á að minnsta kosti tvö hús í Kópavogi í desember. 

„Það er áhyggjuefni að sjá í fréttum og frá lögreglu mál sem hafa verið að koma upp undanfarna mánuði og misseri þar sem um er að ræða meðferð og beitingu skotvopna og kannski sérstaklega í ljósi þess að Ísland hefur mælst aftur og aftur ein friðsamasta þjóð sem til er hér á jörðu þegar kemur að glæpaverkum, hryðjuverkaógn og ofbeldisbrotum,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði og afbrotafræðingur.

„Og það er kannski þess vegna sem þetta stingur í augu, að sjá mál af þessu tagi koma upp í okkar annars friðsama samfélagi.” 

Árið 2022 hófst með sama hætti og fyrra ár; önnur skotárás og í það skiptið á hús í Kórahverfi. Mánuði síðar, 10. febrúar, var ung kona skotin í kviðinn og karlmaður í fótinn í Grafarholti. Tveimur dögum síðar var karlmaður skotinn í brjóstið í miðbæ Reykjavíkur. Síðasta skotárás var í Hafnarfirði á nú á miðvikudag.

Málin mjög ólík

Helgi segir áhugavert að sjá hversu lítið þessi mál eiga sammerkt. 

„Það sem maður tekur eftir er að þessi mál eru af mjög ólíkum toga. Þetta er ekki bara einhver tiltekinn þjóðfélagshópur, þetta er ekki tiltekinn aldurshópur. Þetta á sér stað í dreifbýli, þetta á sér stað í þéttbýli. Þannig að það eru í sjálfu sér engin klár samkenni.”

Skotárásir hafa verið nokkuð tíðar í til dæmis Svíþjóð, og þá var hryðjuverkaárás framin í Ósló í Noregi í fyrrinótt. Helgi vill ekki meina að Ísland sé á pari við þau lönd en undirstrikar mikilvægi þess að vera á varðbergi.

„Málið í Noregi hreyfir við okkur. Norðmenn og Íslendingar, þetta eru náskyldar þjóðir, og þegar það koma upp mál af þessu tagi að þá snertir það okkur öll,“ segir hann.

„Þetta minnir okkur á það að réttindabarátta hinsegin fólks eða annarra minnihlutahópa er alls ekki sjálfgefin. Þetta er ekki unnin barátta heldur verður sífellt að halda vöku okkar, því bakslagið getur komið í ýmsum myndum. Og í Noregi þá hefur þetta átt sér stað á öfgafullan og hryllilegan hátt eins og við upplifðum um helgina og við skulum auðvitað vona að ekkert slíkt gerist hér hjá okkur.”