Innviðaráðuneytið telur að ný byggð í Skerjafirði ógni rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og krefst þess að framkvæmdum verði frestað.
Svæðið, sem hefur verið kallað Nýi Skerjafjörður, liggur nærri Reykjavíkurflugvelli og er í raun framlenging á Einarsnesi. Í fyrsta hluta framkvæmdanna, sem áttu að hefjast á næsta ári, átti að byggja hús undir 690 íbúðir.
Í bréfi sem innviðaráðherra sendi borgarstjórn í síðustu viku segir að framkvæmdir við byggðina dragi verulega úr rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Því hefur ráðuneytið skipað starfshóp sérfræðinga sem skilar niðurstöðum 1. október.
Óásættanlegt að fullkanna ekki áhrif á rekstur flugvallarins
Þar segir að það sé „með öllu óásættanlegt að farið sé í slíkar framkvæmdir án þess að fullkannað sé hvort - og þá með hvaða hætti, sé tryggt að þær hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Ráðuneytið geti ekki fallist á að framkvæmdir hefjist, nema sýnt sé fram á að flug- og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu.“
„Ráðuneytið leggur því þunga áherslu á að Reykjavíkurborg fresti öllum áformum um úthlutun lóða og byggingaréttar og hefji engar framkvæmdir á svæðinu fyrr en niðurstaða rannsóknar liggi fyrir“ segir í bréfi innviðaráðuneytis.
Vonast til þess að uppbyggingin verði að veruleika
Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri - í fjarveru Dags B. Eggertssonar, segir borgina ekki mega við því að missa 690 nýjar íbúðir.
Nú er ráðuneytið að setja spurningarmerki við, finnst manni í þessu bréfi, undirbúninginn að þessu og kannski að ýja að því að það hafi skort samráð við sérfræðinga Isavia. Hvert er þitt mat á því?
„Það hafa náttúrulega verið unnar tvær skýrslur um málið og á því hefur verið byggt.“
Þau leggja til að allt verði sett á ís núna, verður það þannig?
„Já að sjálfsögðu, það er búið að úthluta tveimur lóðum þarna og þriðja lóðin átti að koma til meðferðar borgarráðs á síðasta fundi. Því var frestað, í ljósi afstöðu ráðuneytisins og það er eðlilegt að vinna málið áfram í þeim farvegi sem það hefur verið sett í. Þessi starfshópur á að skila af sér 1. október og við tökum þátt starfi hans og vonumst eftir því að vinnan gangi greiðlega.“
Er inn í myndinni að þessi framkvæmd verði alfarið blásin af?
„Ég vona ekki, ég vona það verði hægt að byggja þarna fallegt hverfi, sem þjónar þessum hópum sem eru í sárri neyð eftir húsnæði og um leið að tryggja rekstraröryggi flugvallarins.“
Fréttin hefur verið uppfærð.