Agnarlítil blóðsuga hefur á örfáum árum náð að setja mark sitt á líf fjölmargra Íslendinga yfir sumarmánuðina. Hlýnandi loftslag virðist hafa hjálpað til við að lokka lúsmýið, frægasta skordýr landsins, hingað á svo stuttum tíma.  Flugan er þekkt frá Mið-Evrópu, Norður- Evrópu og í Rússlandi. Hún er algeng á Bretlandseyjum svo eitthvað sé nefnt. 

Skortir rannsóknir

Að minnsta kosti þúsund tegundir lúsmýs eru þekktar en fram til ársins 2015 höfðu aðeins sex þeirra verið greindar hér á landi. Þær tegundir lögðust ekki á fólk. Svo mætti sjöunda tegundin til leiks og það með látum. Bitvargurinn gerði fyrst vart við sig í Kjósinni og Svínadal norðan megin Hvalfjarðar en samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands fóru ábendingar fljótlega að berast víðar af Suðvesturlandi. Íbúar Mosfellsbæjar, Grafarvogs og Hafnarfjarðar fóru hver af öðrum að vakna útbitnir og sama má segja um íbúa í Leirársveit, Melasveit, Skorradal í Borgarfjarðarsýslu og fleiri stöðum. Nú er lúsmýið að finna í flestum landshlutum. Gísli Már Gíslason er prófessor emeritus í líffræði við háskóla Íslands. 

„Það má segja að það sé svona á láglendi en samt ekki við sjávarsíðuna. Á Suðurlandi, Vesturland og Norðurlandi alveg til Eyjafjarðar og svo á Snæfellsnesi. Svona frekar í uppsveitum. En við erum lítið nær um lífsferil og hvar lirfan elst upp vegna þess að það er enginn sem er að stunda rannsóknir á lúsmýi.”  Segir Gísli. 

Þrátt fyrir einstakan áhuga íslensku þjóðarinnar á þessu agnarsmáa óargadýri virðast skordýrafræðingar hér á landi ekki deila þeim áhuga. Að minnsta kosti ekki enn. Gísli segir að tegundin hafi heldur ekki verið mikið rannsökuð í öðrum löndum. Því sé mörgum spurningum ósvarað um fluguna.  

Lirfur þroskast í deiglendi

Þrátt fyrir að lítið hafi verið um rannsóknir á litla rándýrinu segir Gísli ýmislegt vitað eins og að lirfan lifir og þroskast í deiglendi. „Annað hvort í mýrum, vötnum eða ám eða lækjum og svo jafnvel í deigum túnum." Segir Gísli.

Hann tekur þó fram að ekki sé fyllilega vitað hve lengi lirfan er að þroskast. „En miðað við að flugtíminn hér á landi, þegar fullorðnu flugurnar eru uppi við og eru að bíta fólk eru þrír mánuðir, þá gæti það bent til þess að það séu tveir, jafnvel þrír lífsferlar á ári. Svo einn lífsferill þar sem lirfan er allan veturinn svo kemur fullorðin fluga sem bítur og verpir og svo kemur næsti lífsferill sem tekur styttri tíma kannski einn, tvo, þrjá mánuði. Það fer eftir því hvað eru margir lífsferlar. Þetta er það sem við vitum um þessar flugur. Það er bara á fullorðna stiginu sem kvendýrið bítur spendýr og blóðið er nauðsynlegt þeim svo eggin geti þroskast og þær geti verpt aftur.”  Segir Gísli.

Mun líklegast dreifa sér um allt land

Gísli segir að flugan sé nokkuð lífseig og fyrst hún hafi náð að nema land hér sé hún komin til að vera. Hún hefur ekki enn gert vart við sig á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Hann segir þó líklegast aðeins tímaspursmál hvenær örsmái bitvargurinn finnist þar.  

„Hún er mjög algeng frá Eyjafjöllum,  vestur um Suðurland, á Vesturlandi og svo á Norðurlandi-Vestra að Eyjafirði og Snæfellsnesi. Svo eru tilfelli um bit á Hornafirði. Þannig að hún er að dreifa sér. Bæði getur hún fokið til. Hún er lítið kvikindi, bara einn og hálfur millimetri og berst með vindum en einnig er hún sennilega að berast með hjólhýsum og húsbílum á meðan að fólk er að ferðast á sumrin. Þetta er bara inni í hjólhýsunum og svoleiðis og berst þannig til nýrra svæða.” Segir hann. 

Sumarhúsaeigendur áhyggjufullir

Meira en helmingur allra sumarhúsa á Íslandi er á Suðurlandi og þar er lúsmýið hvað algengast. Dæmi eru um að fólk hafi selt sumarbústaði sína vegna óværunnar. Gísli segist ekki mæla með því að fólk eltist við lúsmýlaus landsvæði til að forðast bit enda stækki útbreiðslusvæði þess óðum.  

„Þeir bústaðir þar sem er mest af lúsmýi, það er þar sem er skjólsælast. Því þessar flugur eru svo litlar að þær geta ekki flogið nema í logni. Þar sem er mikill gróður í kringum sumarbústaðina þar er mikið logn og fólki líður almennt betur þó að það geti verið svona lúsmý sem fylgir. Síðan verður fólk fyrst og fremst bitið á nóttunni. Þó það sé líka bitið á daginn, það má ekki gleyma því, ef að það situr í logni úti í sólinni getur það verið bitið líka. En það sækir inni í húsin og bítur innandyra.” Segir Gísli. 

Þá gildi sömu ráð og áður. Gísli mælir með því að sofa með lokaða glugga, viftu inni í svefnherbergi og fínriðið net eða efni fyrir gluggum.

Áhrif lúsmýs á sölu og kaup takmörkuð

Monika Hjálmtýsdóttir, varaformaður Félags fasteignasala, segir áhrif lúsmýs á sölu og kaup á sumarhúsum landsmanna vera nokkuð takmörkuð. 

„Við heyrum auðvitað þessa umræðu eins og aðrir en við höfum ekki fundið fyrir því að það sé einhver flótti eða minnkun á sölu en auðvitað spyr fólk, það spyr hvernig aðstæður eru á þeim stöðum þar sem það er að skoða sumarhús. Þannig að fólk vill fá að vita og kynnir sér þessi mál.” Segir Monika. 

Lærum að lifa með mýinu

Lúsmýið virðist í stórum dráttum sækja í sömu aðstæður og við gerum á sumrin. Logn og hlýju innan um hávaxinn gróður og það er ekki verra ef vatn er í grenndinni. Sumarbústaðir við svæði sem uppfylla þau skilyrði hafa hingað til verið mjög eftirsóttir. Má búast við að það breytist?  

 „Já, það er náttúrulega alveg rétt. Við sjáum að staðir sem eru vinsælastir í sumarhúsum eru til dæmis við vötn og þar er lúsmýið mest. Þar eru dýrustu svæðin líka. Við sjáum það til dæmis á suðurlandinu og vesturlandi sem dæmi þannig að það er svolítil samkeppni um þetta. En það er náttúrulega þannig að hús í dag, sumarhús eru ekki sumarhús heldur heilsárshús og fólk er að nota þetta allan ársins hring. Fólk þarf bara aðeins að breyta hegðun sinni. Fólk er kannski ekki endilega að borða kvöldmatinn úti á palli í logninu eins og við myndum kjósa þegar svoleiðis dagar koma. Þannig að fólk þarf bara að aðlaga sig að þessum aðstæðum. Þannig að við erum ekki að sjá einhvern flótta, fólk er bara að læra að lifa með þessu.” Segir Monika.