Morguninn hófst eins og venjulega hjá Mateusz Dariusz Lasek þegar hann fór með son sinn Jakub Mateusz á leikskólann Víðivelli í Hafnarfirði í gær. Feðgarnir mættu snemma og voru að bíða eftir að leikskólinn opnaði þegar skotið var á bíl þeirra.

Mateusz er búinn að búa á Íslandi í 11 ár. Hann er lærður bifvélavirki og vinnur á verkstæði í Reykjavík. Hann og kona hans eiga tvö börn, dóttur sem er eins árs og sex ára son. Hann talar bæði ensku og íslensku en eftir árásina í gær er honum mjög brugðið og á erfitt með að finna réttu orðin til að lýsa atburðunum jafnvel á sínu eigin móðurmáli. Hann segir að hann og sonur hans mæti alltaf fimm mínútum of snemma fyrir utan leikskólann og spjalli saman í bílnum fyrir opnun.

Hélt að hann væri glæpamaður

„Svo heyrði ég einhvers konar smell. Fyrst hélt ég að þetta væru einhver hljóð í bílnum, að eitthvað skemmdist. Smellurinn var ekki mjög hár en vel heyranlegur. Nokkrum sekúndum síðar heyrði ég annan smell en hærri og svo fann ég fyrir gleri rigna á bakið og höfuðið á mér. Ég opnaði hurðina og steig úr bílnum til að athuga hvað skeði, hvort það hafi verið einhver að kasta stein í rúðuna eða hvað. Þá sá ég mann á svölum með langa byssu og hann var að miða á bíllinn okkar. Ég hrópaði á hann „hvað ertu að gera?" og „hættu þessu" og sagði að ég ætlaði að hringja í lögreglu. Svo hringdi ég strax í lögreglu. Það var hvort sem er enginn annar á bílastæðinu nema við feðgarnir.“

„Þegar ég byrjaði að hrópa mjög hátt á hann þá hrökk hann við. Ég man að ég spurði hann af hverju hann væri að þessu og hann svaraði að hann héldi að ég væri einhvers konar glæpamaður.“

Tók mjög á son hans

Mateusz segir að atburðurinn hafi fengið mjög á son hans. Hann hafi meðal annars þurft að hrópa á hann að fela sig á gólfinu frammi í bílnum. Mateusz ákvað í kjölfarið að fara með drenginn í leikskólann til að koma honum á öruggan stað, og ræddi svo ekkert meira við hann þangað til hann var komin aftur heim úr leikskólanum.

„Við komum heim og strákurinn fór að segja mömmu sinni hvað kom fyrir. Hann sagði að það hafi verið vondur maður sem skemmdi bílrúðuna í bílnum okkar og að pabbi hafi hrópað mjög hátt á hann. Þannig hann veit augljóslega hvað kom fyrir. Þetta er hans skilningur á atburðinum. Hann skilur ekki enn að maðurinn reyndi augljóslega að drepa okkur. Hvað er annað hægt að kalla þetta?“

Treysti sér ekki til vinnu 

Mateusz vonar að þetta hafi ekki varanleg áhrif á strákinn. Í dag var Jakub í sínu síðasta leikskólaferðalagi, vegna þess að hann byrjar í grunnskóla í haust. Mateusz hélt fyrst að hann þyrfti sjálfur ekki neina aðstoð eftir árásina en eftir samtal við konuna sína fékk hann áfallahjálp hjá Rauða krossinum. Hann á erfitt með að einbeita sér og treysti sér ekki til að mæta til vinnu í dag. Hann hefur fundið fyrir miklum stuðningi frá samstarfsfólki, nágrönnum og vinum og fengið ótalmörg hughreystandi skilaboð og símtöl. 

Mateusz segist enn vera í miklu áfalli. Hann sé að upplifa alls konar tilfinningar sem sé erfitt að lýsa í orðum.  „Mér myndi aldrei detta í hug að eitthvað slíkt gæti komið hérna upp. Ég er í miklu uppnámi. Guði sé lof að ég er á lífi. Sonur minn er á lífi og enginn annar hefur meiðst í þessum hræðilega atburði.“