„Það er enginn að fara að reisa fimm nýjar Kárahnjúkavirkjanir á Íslandi.“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra. Þó þurfi að virkja meira til að standa undir orkuskiptum og standa við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Stefnt er að fullum orkuskiptum á næstu 18 árum. Mörgum spurningum er ósvarað um þau, til dæmis hvernig megi framleiða raforkueldsneyti að knýja flugvélar og skip án olíu. „Það sem við vitum er að við ætlum að fara í umhverfisvæna orkugjafa. Við ætlum að fara í þessi orkuskipti. Við erum að taka bensín og dísil og segja, við ætlum ekki að nota þetta. Og það er auðvitað stórmál,“ segir Guðlaugur Þór.
Í grænbók um orkumál sem Umhverfisráðuneytið kynnti í mars, voru birtar sex ólíkar sviðsmyndir. Sú sem lengst gengur er frá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Þar er gert ráð fyrir að raforkuþörfin aukist um 124%, sem jafngildir meira en fimm nýjum Kárahnjúkavirkjunum, eins og fjallað var um í fréttum í gær. Þá er miðað við að notkun stórnotenda raforku, stóriðju og annars orkusækins iðnaðar haldi áfram að aukast eins og verið hefur. Önnur sviðsmynd samtakanna gerir ráð fyrir rúmum þremur Kárahnjúkavirkjunum. Hinar sviðsmyndirnar ganga mun skemur, til að mynda gerir önnur af tveimur sviðsmyndum Orkustofnunar ráð fyrir 21% vexti til ársins 2050, eða sem nemur tæplega einni Kárahnjúkavirkjun. Þar er þó hvorki gert ráð fyrir fullum orkuskiptum né aukinni orkuþörf stórnotenda.
Guðlaugur Þór segir ljóst að ekki verði reistar fimm nýjar Kárahnjúkavirkjanir á Íslandi. Miklu fjölbreyttari valkostir séu fyrir hendi.
Orkuskipti án þess að virkja meira
Landvernd birti nýverið þrjár sviðsmyndir. Sú sem lengst gengur gerir ráð fyrir að við þurfum 75% meiri orku, eða sem nemur þremur Kárahnjúkavirkjunum. Samtökin kenna hana við kæruleysi og aðgerðaleysi. Önnur sviðsmynd gerir ráð fyrir fullum orkuskiptum án þess að virkja meira, með betri nýtni, til dæmis með því að draga orkunotkun stóriðju saman um helming.
Guðlaugur segir óumdeilt að framleiða þurfi græna orku. „80% af orkunni okkar fer í stóriðju og stórnotendur. Það er alveg hægt að taka þá orku og nota í orkuskiptin? Já, það er alveg hægt. En hvað ef allir gerðu það? Hvað ef allar þjóðir færu þá leið að það sem að okkur snýr, við færum það bara til annarra landa. Þá næðist enginn árangur í baráttunni gegn loftslagsvánni.“
Hann bætir því við að þetta sé verkefni sem taka þurfi alvarlega enda sé það stórt. „Við þurfum að ræða okkur í gegnum mjög marga hluti, en við skulum ekki hræðast það. Og það er margt sem mun hjálpa okkur í þessu og þá fyrst og fremst hugvitið.“