Klínísk rannsókn er hafin á mótefni gegn alzheimer. Hún er á fyrsta stigi hjá dönsku lyfjafyrirtæki. Uppgötvunina gerði íslenskur prófessor við New York háskóla.
Rannsakað við kjöraðstæður
Þessi lyfjaprófun byggir einkaleyfum Einars Más Sigurðssonar en hann hefur stjórnað rannsóknarstofu þar í aldarfjórðung.
„Við erum að rannsaka að miklu leyti alzheimer-sjúkdóminn og líka að sumu leyti parkinson-sjúkdóminn og svona tengda sjúkdóma sem að eru með ákveðnar útfellingar í heilanum,“ segir hann.
Læknisfræðimiðstöðin þar sem Einar Már starfar er í mörgum byggingum, flestar eru á Manhattan við Austurá rétt fyrir neðan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Miðstöðin heitir Langone Health og er í öðru sæti yfir bestu lækninga- og lífvísindaháskóla í Bandaríkjunum samkvæmt lista fyrirtækisins U.S. News and World Report. Rannsóknarstofa Einars Más er í nýrri margra hæða byggingu sem helguð er taugavísindum. Hann og um tíu manna starfslið hans rannsakar einhver fyrstu skrefin á nokkuð langri leið að lokamarkmiðinu sem eru ný lyf.
Tugir milljóna með heilahrörnunarsjúkdóma
Engin lækning er til við heilahrörnunarsjúkdómum eins og alzheimer. 55 milljónir eru með slíka sjúkdóma samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og bandarísku alzheimersamtökin telja að ein og hálf milljón hafi látist í heiminum úr heilahrörnunarsjúkdómi árið 2019.
Mótefnið þróað í músum
Útfellingarnar sem Einar Már nefndi áðan eru tvö prótein sem tengjast alzheimer-sjúkdómnum; amyloid-prótein og tau-prótein, og svo alpha-synuclein próteinið sem myndar útfellingar hjá parkinson-sjúklingum.
„Við fókuserum mikið á, erum mikið að skoða þetta í músum, sem að eru þá með þessi mannagen í sér, því að mýs fá ekki þessa sjúkdóma. En þá erum við með þessi mannagen, það eru stökkbreytingar í þeim sem tengjast þá ákveðnum tegundum af þessum sjúkdómum. Og svo viljum við líka náttúrulega reyna að finna út úr því hvernig við getum við hægt á þessum skemmdum. Og þá erum við að þróa ýmis mótefni. Við byrjum t.d. að búa til mótefni í músum þá og erum þá skoða hvernig þessi mótefni virka í músum. Og sumt af þessu hefur leitt til klínískra rannsókna. Það er lyfjafyrirtæki, sem fékk einkaleyfi á sumum af einkaleyfunum, sem við erum með, og nýttu þau til þess að þróa mótefni sem að er núna í klínískum rannsóknum á fyrsta stigi. Þeir eru búnir að vera á fyrsta stigi í alla vega núna í tvö ár held ég. Kóvid setti eitthvað strik í reikninginn þ.a. það hægðist aðeins á því en þeir eru búnir að vera að skoða þetta í tvö ár og það er á fyrsta stigi. Og því líkur sennilega ekki held ég fyrr en í loka ársins.“
Gætu lifað lengur og við meiri lífsgæði
Klíníska rannsóknin í Danmörku gæti tekið í allt um tíu ár. Eitt hundrað manns taka þátt í fyrsta stigi lyfjaprófana, í þessu tilfelli mótefnaprófana. Gangi það vel taka nokkur hundruð manns þátt á öðru stigi prófana og svo mörg þúsund manns á þriðja og síðasta stigi rannsóknarinnar.
„Og þriðja stigið er í raun og veru þar sem þú ert að skoða það hvort að þú getur dregið úr þessum minnisglöpum eða hægt á þeim. Það er mjög ólíklegt að þú getir snúið einhverju við þar. En aðalmálið er að reyna að hægja á þessu þannig að einhver geti lifað með sjúkdóminn í 20 ár í staðinn fyrir fimm til tíu ár. Þá geturðu kannski verið heima hjá þér í stað þess að enda á hjúkrunarheimili.“
Þú segir hægt á eða jafnvel stöðvað þróunina?
„Ja, mér finnst það ólíklegt að það sé hægt að stöðva þróunina . Byrjum á því að reyna að hægja á þessu því það hefur ekkert virkað hingað til. Það er best að vonast ekki eftir of miklu, það hefur ekkert hægt á þessu hingað til og þar viltu byrja.“
Mótefni úr lamadýrum sett í flugur
Þessi klíníska rannsókn í Danmörku er aðeins byggð á hluta af því sem gert hefur verið á rannsóknarstofu Einars Más. Margt fleira er í gangi, meðal annars er nú verið að rannsaka mótefni úr lamadýrum.
„Hluti af þeirra mótefnum eru minni má eiginlega segja, bara til þess að maður setji þetta svona fram á einfaldan hátt. Minni og geta verið svona einn tíundi hluti af venjulegu mótefni. Þannig að þau fara betur inn í heilann og þau geta þá farið sennilega betur inn í frumur þar sem að mest af tau-próteininu er. Það fellur aðallega út inni í taugafrumum. Og þú þarft eiginlega helst að nálgast það þar, þar sem mestu skemmdirnar eru. Og þau gætu þess vegna komist betur inn í frumuna og komist betur inn í heila og geta þá líka binst við viðtaka, sem stærri mótefni ná ekki að bindast við. Þannig að þau hafa svona eiginleika sem að gætu kannsti nýst betur til þess að auka hreinsun á þessum útfellingum.“
Þessi litlu mótefni úr lamadýrunum voru sett í flugur og þær gætu búið til svona lítil mótefni:
„Svo geturðu látið þær flugur eignast flugur með flugu sem er með tau-útfellingar. Og þá endarðu með flugu, sem er bæði með tau-útfellingar og getur líka búið til þessi mótefni. Þá geturðu skoðað á tiltölulega skömmum tíma, tekur kannski tvo mánuði að finna út úr því, er kannski möguleiki að þessi mótefni gætu virkað sem kallast þá gene therapy. Þá myndirðu vera að sprauta fólk með þessu með ákveðnum vírus, sem að gæti þá annað hvort búið til þessi mótefni í lifrinni eða þá farið jafnvel inn í heilann og búið þau til þar akkúrat þar sem þau þyrftu að virka.“
Genalækningar í framtíðinni gætu breytt miklu
En svona genalækningum, á ensku gene therapy, fylgir ákveðið hætta þó svo að veiran fari ekki inn í genin sjálf, segir hann, því að sumu leyti gæti slíkt verið óafturkræft. Þróunin er hins vegar hröð í genalækningum
„Þannig að þetta er svona framtíðin gæti ég trúað að á endanum þá myndi kannski ekki þurfa að taka þetta mótefni í æð eða vera þá með bóluefni. Þá geturðu í raun og veru kannski fengið bara sprautu með vírus, sem að myndi þá búa til lyfið í þér ef þú þyrftir á því að halda. Þá er það náttúrulega óafturkræft og þú ert ekkert að fara þá leið akkúrat núna.“
Lyfjaþróun er samvinnuverkefni rannsóknarstofnana um allan heim
Rannsóknarstofa Einars er að níu tíu hlutum fjármögnuð með styrkjum frá Bandarísku heilbrigðisstofnuninni. Og hann hefur ekki áhuga á að telja hvað hann er með mörg einkaleyfi. Lækningamiðstöð New York háskóla sér um það.
„Þú ert í raun og veru að reyna að vinna að því að þróa ný lyf eða alla vega hjálpa til við lyfjaþróun til þess að vinna bug á þessum sjúkdómum. Það er svona í raun og veru langtímamarkmiðið. Og til þess að geta gert það að þá þarftu að fá áhuga frá lyfjafyrirtækjum til þess að taka þátt í þessum kostnaði vegna þess að það er ekki kostnaður sem venjulegt lab getur séð um. Og til þess að þau séu tilbúin í það að þá þarf að vera einkaleyfi á því sem þú ert að vinna við þannig að lyfjafyrirtækin sjái sér hag í því að kosta þær rannsóknir.“
Þetta að finna lyf við alzheimer, það eru margir að reyna að komast að komast að einhverju slíku eins og þið eruð að gera?
„Í raun og veru er þetta má eiginlega segja stórt samvinnuverkefni þannig maður er í raun og veru að reyna að birta ákveðnar niðurstöður og svo eru aðrir geta tekið það til greina varðandi það sem þeir eru að vinna og við gerum það sama. Þetta er í raun og veru stórt samstarfsverkefni margra rannóknarstofnana ekki bara í Bandaríkjunum heldur út um allan heim. Skilyrðin eru að reyna að birta þá bæði þínar niðurstöður og skrifa greinar þar sem þú ert að koma á framfæri þínum hugmyndum og svoleiðis og fólk getur síðan tekið upp eitthvað af því.“