Slökkviliðsstjórinn á Akureyri segir orðið tímabært að huga að brunavörnum í Kjarnaskógi og nærliggjandi umhverfi. Vinnuhópur hefur verið stofnaður í því skyni.
Aukinn gróður og hækkandi hitastig skapar hættu
Mikil aðsókn hefur verið á tjaldsvæðið að Hömrum og í Kjarnaskóg á síðustu árum. Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir að hætta á gróðureldum sé til staðar þar með vaxandi gróðri og hækkandi hitastigi. Nú hefur verið settur á fót vinnuhópur um brunavarnir á svæðinu. „Við ætlum að reyna að hafa fyrstuhjálparbúnað kláran fyrir sumarið fyrir almenning að geta slökkt í ef það verður eitthvað óhapp og glóðir verða sjáanlegar á meðan beðið er eftir slökkviliðinu,“ segir Ólafur.
Lokamarkmið að ráða við skógareld og tryggja aðgengi
Ólafur segir að hópurinn sé enn að meta þarfirnar. Huga verði að aðgengi slökkvibíla „Við erum með aðgengi að helstu stöðum í skóginum sem fólk kemur saman á og mestar líkur eru á að kvikni í en auðvitað eru svæði hérna í skóginum sem við ættum mjög erfitt með að komast um.“ Lokamarkmiðið sé að slökkviliðið ráði við skógareld á flestum stöðum í skóginum, að aðgengi sé gott og að búnaður komist á vettvang. Auk þess sé öryggi gesta í fyrirrúmi. Gestir verði líka að vera varkárir. „Gasgrill og kolagrill eru með réttri notkun ekki verulega hættuleg en við ákveðnar aðstæður getur þurft að banna alla notkun á grillum ef það verður mjög þurrt og mikil eldhætta,“ segir Ólafur og bætir við að það verði gert ef þörf krefur.
Fólk farið að átta sig á hættunni
Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir að þarna sé raunveruleg eldhætta og tímabært að gera ráðstafanir. „Það er smátt og smátt búið að renna upp fyrir fólki að það er hætta sem stafar af þessum mikla gróðri og skógi sem er víða kominn nálægt þéttbýli og nálægt stórum samkomustöðum, eins og tjaldsvæðinu hérna á Hömrum,“ segir Andri. Til lengri tíma litið þurfi að skipuleggja skógræktina, tjaldsvæðið og byggð nálægt skógi með þetta fyrir augum.