Þáttur 2 af þáttaröðinni Förum á EM er sýndur á RÚV klukkan 20 í kvöld. Þar ferðast þeir Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson um Evrópu og hitta leikmenn Íslands fyrir Evrópumótið í fótbolta í sumar. Í þætti kvöldsins hitta þeir þær Dagnýju Brynjarsdóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur.

Ingibjörg leikur með Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni og hefur verið þar síðan 2020. Hún varð norskur meistari og bikarmeistari með liðinu sama sumar.

Ingibjörg er fjölhæf íþróttakona. Hún er 24 ára gömul og frá Grindavík. Þar lék hún líka körfubolta og spilaði með Grindavík í úrvalsdeildinni í körfubolta. Þá á hún líka að baki leiki með U-16 ára liði Íslands í körfu. 

Í þætti kvöldsins fer hún með Benedikt og Thomasi Sjövold, unnusta Ingibjargar, í golf. Þar reynist Ingibjörg líka býsna glúrin.