Skylt er að tilkynna um apabólusmit ef það kemur upp en þrír hafa greinst með veiruna hér. Sóttvarnalæknir hefur lagt áherslu á fræðslu og upplýsingagjöf til að lágmarka útbreiðslu veirunnar. Ekki hefur verið talin þörf á að grípa til opinberra ráðstafana, hvorki samfélagslegra takmarkana né skimunar. Apabóla hefur lengi fundist í Vestur- og Mið-Afríku, í að minnsta kosti hálfa öld, og afbrigðið sem nú verður helst vart veldur oftast vægum veikindum.

Apabólan tilheyrir stórri fjölskyldu veira segir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og þetta eru að öllum líkindum mjög gamlar veirur. Þetta eru stærstu veirur sem smita spendýr og fugla, harðgerar og mjög flóknar - flóknari en margar þeirra veira sem menn fást almennt við. 

Fjölmargar bólu- eða pox-veirur

Apabólan er skyld kúabólu og bólusótt en hefur ekkert með hlaupabólu að gera, segir Vilhjálmur.  Þessi fyrrnefnda bólufjölskylda skiptist í undirfjölskyldur veira sem ýmist smita lindýr eða hryggdýr. Apaveiran, gamla bólusóttarveiran og kúabólan eru allar náskyldar. Þær veirur sem kenndar eru við pox eru fjölmargar og fer eftir skyldleika þeirra innbyrðis hvort ónæmi við einni ver við annarri. 

Þessar veirur eru notaðar sem veiruferjur fyrir aðrar pestir segir Vilhjálmur því þær hvata svo gott ónæmissvar; ræsa ónæmiskerfið af krafti og það fær gott minni fyrir svarinu.

Bólusóttin var lengi vel mjög skæð

Öldum saman börðust menn við bólusótt sem er náskyld apabóluveirunni en henni var útrýmt 1977 með sameiginlegu bólusetningarátaki í veröld allri. Það gert að frumkvæði Rússa og tókst. Bólusóttin var skæður sjúkdómur og forn, merki hennar má sjá á mörg þúsund ára gömlum múmíum í Egyptalandi og hún breiddist svo út. Á Íslandi felldi stórabóla um fimmtung allra landsmanna snemma á 18. öld. Það voru tvö afbrigði af henni og misskæð; annað olli um dauða um eins af hverjum hundrað sem sýktust en hitt tuttugu til þrjátíu. 

Yngra fólk sem ekki var bólusett við bólusótt næmara fyrir apabólunni

Síðustu tilfelli bólusóttar voru á áttunda áratug síðustu aldar og árið 1977 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir að henni hefði verið útrýmt og milli 1980 og 1990 var víðast hvar hætt að bólusetja fólk.  Í einstökum tilfellum voru ákveðnir hópar eins og hermenn bólusettir vegna ótta við sýklavopnahernað. Vilhjálmur segir mörg lönd hafa komið sér upp birgðum af bóluefni eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 en almennt séu árgangar eftir 1980 óbólusettir. Bólusetningin veitir vernd í að minnsta kosti fimm ár en allt útlit er fyrir að hún endist miklu lengur. Það sjáist þar sem apabóla hefur dúkkað upp í Afríku því þar smitast aðallega fólk sem er undir fertugu og ekki bólusett. 

Ferðalög og þvælingur á fólki ýtir undir dreifingu

Aðspurður hvort nú séu meiri brögð að því en áður að veirur flakki á milli tegunda og stökkvi úr dýrum í menn segir Vilhjálmur að greiningaraðferðir séu orðnar miklu betri en áður var og meira vitað um hvað sé að finna í náttúrunni. Í veirufræðunum telji menn þó að þeir þekki ekki nema kannski einn hundraðasta af öllum mögulegum veirum. 

Smitefni apabólusóttarinnar berst úr dýrum í menn. Í Afríku eru tveir stofnar af apabólu, annar í Mið-Afríku og hinn í Vestur-Afríku og það virðist vera sá síðarnefndi sem dreifir sér núna og sú er ekki eins skæð. Apabóla fannst í tilraunadýrum í Kaupmannahöfn 1958 og greindist svo í mönnum um 1970. Síðan hafa komið upp minni faraldrar í Afríku og einstaka sinnum borist út þaðan.  Vilhjálmur á ekki von á stórsprengju í útbreiðslu apabóluveirunnar en þó verði hún ábyggilega eitthvað dormandi.

„Það er þessi andskotans þvælingur á fólki fram og til baka,“ segir hann. Fólk er að koma alls staðar að, hittist og dreifir áfram til annarra. Apabóla smitast ekki nema við nána snertingu, í gegnum sár og vessa og nú hafði verið talað um að hún smitaðist við kynmök en um það höfðu aðeins verið vísbendingar. 

Smitefni geta enst lengi þurr í lífrænu efni og apabóluveiran er ekki mjög næm fyrir spritti

Þó að apabóluveira valdi sjaldnast alvarlegum veikindum getur verið erfitt að ráða við hana, því hún er harðger og til dæmis ekki mjög næm fyrir spritti. Í skurfum af bólum, þurrkuð í lífrænu efni getur hún haldist smithæf lengi, segir Vilhjálmur. 

Smáapar, broddgeltir, íkornar og nagdýr eru hýslar apabólu

Honum sýnist þessi smit sem nú er um rætt skólabókardæmi um að fólk leitar sífellt inn á ný svæði, kemst oftar í snertingu við veirur úr dýrum og ber þær svo áfram vegna fjölgunar. Smáapar eða apakettir eru taldir höfuðhýslar apabóluveirunnar en íkornar, nagdýr og broddgeltir koma líka við sögu. Tilfelli í Afríku oft rakin til þess þegar veiðimenn leita sér bráðar, sem kölluð er bushmeat á ensku, það er villtra smádýra sem þeir leggja sér til munns.