Prófessor í afbrotafræði telur að haldlagning lögreglu á miklu magni fíkniefna hafi óveruleg áhrif á fíkniefnamarkaðinn. Hann segir að skoða þurfi hvað valdi aukinni eftirspurn. 

Haldlagning hefur tímabundin áhrif

Í síðustu viku bárust fréttir af því að lögregla hefði lagt hald á meira af fíkniefnum en nokkru sinni. Söluvirði efnanna er um einn komma sjö milljarðar króna á götunni með tilheyrandi áhrifum á fíkniefnasölu og -neyslu hér á landi. Eða hvað? Hvaða áhrif hefur haldlagning svo mikils magns efna á fíknihegðun og fíknitengda glæpi? Helgi Gunnlaugsson er prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands. 

„Svona í ljósi reynslunnar erlendis og eiginlega einnig hér á landi þá er líklegt að haldlagning lögreglunnar á þessum fíkniefnum svona muni hafa einhver áhrif. En svona í mesta lagi tímabundin áhrif á markað með fíkniefni. Við getum búist við einhverri þurrð á þessum markaði í stuttan tíma, hugsanlega líka að verðlag hækkar en mjög líklegt að markaðurinn jafni sig og fari í svipað far og áður. Það virðist vera svo að eftirspurnin á þessum markaði að hún er það mikil að það eru alltaf einhverjir sem eru tilbúnir að hlaupa í skarðið og koma efnunum á markað. Þrátt fyrir hörð viðurlög fyrir brot af því tagi.” Segir Helgi.  

Magnið endurspeglar gífurlegt framboð

Hann segir mögulegt að hversu mikið magn efna var lagt hald á í þetta skiptið geti gert það að verkum að aðgerðin hafi meiri áhrif en áður hefur sést á íslenskum markaði. Hann setur þó fyrirvara við það. 

 „Ég tel samt að það sé líklegt að þessi stærð á haldlagningunni, að hún sé meira í takti við stærð markaðarins. Það er að segja að þessi markaður hefur farið vaxandi og stækkað á undanförnum árum og haldlagningin er þá í sjálfu sér einhvers konar endurspeglun á því.” 

Hvað veldur svo mikilli eftirspurn?

Helgi segir að aðgerðin höggvi þó eitthvað í framboð fíkniefnanna. Horfa þurfi nú til þess hvað veldur þessari miklu eftirspurn. 

„Hvað það er sem kallar fram þessa neyslu? Hvað er á bak við þessa eftirspurn? Svo þurfum við líka að koma betur til móts við þá sem misnota þessi efni og gera það þá á mannúðlegan hátt í stað þess að elta þá uppi og láta þá fela sig í einhverju skúmaskoti með skömmina. Sem betur fer sjáum við ýmis merki hjá okkur í samfélaginu um þróun af þessu tagi hér á landi. Menn eru tilbúnari en oft áður til að koma til móts við þá sem að verst standa vegna vímuefna og gera það á svona mannúðlegan hátt en ekki bara elta þá uppi til að sekta og haldleggja efnin og gera þá líf þeirra oft bara verra í kjölfarið.” 

Haldlagningar bera ekki tilætlaðan árangur

Svala Jóhannesdóttir, sérfræðingur í skaðaminnkun hjá Matthildi -samtökum um skaðaminnkun, segir margra áratuga reynslu sýna að aðferðir sem þessar skili ekki mælanlegum árangri í að draga úr framboði eða eftirspurn eftir fíkniefnum. 

„Markmiðið með svona haldlagningu er að draga úr framboðinu sem er í sölu á ólöglegum markaði. En í gegnum þessa áratugi höfum við séð gögn frá mörgum löndum að haldlagningar í rauninni hafa ekki þennan árangur. Sem sagt, draga ekki úr framboði og eftirspurn eftir efnunum en hins vegar geta þær aukið skaðann hjá notendum vímuefna í landinu. Það er að segja að þegar að það myndast svona smá rými, þegar það er skortur á efnum í stuttan tíma þá er ákveðin áhætta að hættulegri efni komi inn vegna þess að eftirspurnin er nákvæmlega sú sama.” Segir Svala. 

Auk þess segir hún að fólk sem glími við alvarlegan vímuefnavanda gangi lengra til að verða sér úti um efnin þegar erfiðara sé að fá þau. Notkunin hætti ekki, harkan verði einfaldlega meiri.  

Kostnaðarsamar aðgerðir

„Þegar að kemur að einmitt svona aðgerðum varðandi haldlagninu á svona stórum fíkniefnamálum að þá skiptir líka máli að við hugum að því að þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir. Þær taka oft margar vikur, jafnvel mánuði og stundum ár. Þetta er stór mannafli og það eru margir tímar sem liggja þarna að baki. Ef maður skoðar kostnaðinn á móti heildarárangri þá, því miður, draga svona haldlagningar ekki úr framboði af vímuefnum á ólöglegum markaði. Þannig að það er alveg eðlilegt að við setjum spurningarmerki við svona kostnaðarsamar aðgerðir miðað við árangurinn.” Segir Svala.

En eitthvað hlýtur að þurfa að gera til að sporna við stækkandi fíkniefnamarkaði og vaxandi fíknivanda hér á landi? 

„Við erum svolítið með þessari bann- og refsistefnu, þá er eingöngu verið að setja allan fókus og þunga á framboðið. Það er að segja, að reyna elta uppi þessi fíkniefni og taka þau úr umferð og þannig hefur þessi trú svona myndast um að þá séum við í raun að ná árangri. En þegar við skoðum gögnin þá hafa þessar haldlagningar bara í raun engin áhrif. Bara engin svona heildaráhrif á stöðu magns á vímuefnum inni á ólöglegum markaði."

Svala segir, líkt og Helgi, að rýna þurfi frekar í hvað valdi fíkninni. „Og við ættum í raun alltaf að vera að setja fókusinn á eftirspurnina. Hvað veldur því að fólk er að sækjast svona mikið eftir vímuefnum því það hefur verið að aukast á síðustu áratugum. Þannig að fókusinn ætti að vera þar. Fókusinn ætti alltaf líka að vera á því að við viljum draga úr skaða. Við viljum draga úr áhættu sem fylgir vímuefnanotkun, við viljum draga úr skaðseminni og við viljum náttúrulega sérstaklega draga úr þessum dauðsföllum. Við sjáum til dæmis á Íslandi að ótímabær dauðsföll, þau eru að aukast. Þá þurfum við kannski að fara bara að horfast í augu við það og vera bara svolítið heiðarleg og skoða hvað getum við gert betur?” Segir Svala. Þá segir hún hægt að líta til þess hvernig önnur lönd hafa verið að endurskoða sína nálgun í þessum málum. 

Hægt að líta til annarra landa

„Það sem er líka svo áhugavert, þegar að maður skoðar rannsóknir og gögn, er að í stórum rannsóknum þar sem verið er að taka saman og skoða löggjöf í löndum með frjálslyndari fíkniefnalöggjöf, það er að segja mögulega búið að leyfa kannabis innan ákveðinna marka í læknisskyni eða lönd sem eru komin á þá leið að afglæpavæða neysluskammta. Þá sjáum við að lönd sem eru með frjálslyndari fíkniefnalöggjöf eru ekki með meiri vímuefnanotkun í landinu heldur en lönd sem eru með stranga fíkniefnalöggjöf. Það hversu ströng fíkniefnalöggjöfin er hefur ekki þau áhrif að það séu færri sem nota vímuefni í landinu. Það eru allt aðrar breytur sem hafa mun meiri áhrif.”

Þar nefnir Svala félagslega þætti svo sem efnahag, stöðu, áfallasögu og fleira. Hún segir að auðvelda þurfi fólki að leita sér hjálpar við vanda sínum innan kerfisins.   

Þörf á viðhorfsbreytingu

„Við náttúrulega þekkjum regluvæðingu á áfengi mjög vel. Áfengi er löglegur vímugjafi og Ísland hefur farið þá leið að regluvæða áfengi. Það er að segja að efnið er löglegt, þú mátt nota það og kaupa það en innan ákveðinna marka. Það er mjög sterk reglugerð varðandi það. Við þekkjum það mjög vel og við höfum náð mjög góðum árangri varðandi áfengisnotkun. Eitt af því er að miðað við mörg önnur lönd að þá eru ótímabær dauðsföll vegna áfengisnotkunar hér kannski ekki mjög há miðað við annars staðar. Sumir eru á því að það eigi að regluvæða fleiri vímuefni og ríkið eigi að taka ábyrgð á fleiri vímuefnum. En mín skoðun er sú og þegar að maður bara skoðar gögnin að það skiptir mestu máli að við förum í þessa viðhorfsbreytingu sem er náttúrulega búin að vera í gangi á Íslandi mjög mikið og það er búið að leggja fram þessi frumvörp. Af því að fyrsta skrefið er að við förum að líta á vímuefnanotkun og ef fólk fer að þróar með sér vanda sem meira heilbrigðis og félagslegt mál í staðinn fyrir að við séum að meðhöndla það innan réttarvörslukerfisins.” Segir Svala að lokum.