Bardagarnir við Sjevjerodonetsk verða taldir meðal þeirra grimmilegustu sem átt hafa sér stað í Evrópu, segir forseti Úkraínu. Borgarbúar eru innilyksa og staðan að verða svipuð og í Mariupol.
Svæðið sem Rússar hafa lagt undir sig í Úkraínu hefur verið svipað að stærð í suður- og austurhluta landsins. Áhersla Rússa hefur undanfarnar vikur verið á að ná borginni Sjevjerodonetsk og þeir stigu stórt skref í þá átt í gærkvöld þegar þeir sprengdu síðustu brúna af þremur yfir ána Donets, sem skilur borgina frá næstu borg, Lysytsjansk. Íbúarnir eru þar með orðnir innlyksa. Með því að ná Sjevjerodonetsk ná Rússar í raun völdum yfir Luhansk-héraði og hafa síðan möguleika á að halda áfram sókn sinni eftir Donbas, svæði aðskilnaðarsinna.
Eduard Basurin, varayfirmaður aðskilnaðarsinna, segir valkostina einfalda fyrir Úkraínska hermenn í Sjevjerodonetsk. „Þeir þurfa að vera þarna til eilífðar. Þeir jafa um tvennt að velja - að fylgja fordæmi starfsfélaga sinna og gefast upp, eða deyja. Það eru ekki aðrir valkostir.“
Úkraínumenn segjast þó enn ráða yfir hluta borgarinnar. „Í bardögunum í Donbas - og þeir munu örugglega fara í hersögubækurnar í hóp þeirra grimmilegustu í Evrópu og fyrir Evrópu - sigruðu úkraínski herinn og njósnastofnanir okkar rússneska herinn í herkænsku.“
Bardagarnir hafa verið gríðarlega harðir og manntjón mikið báðum megin. Óttast er að með þessu áframhaldi endi borgin eins og Mariupol, sem Rússar hafa nánast lagt í rúst. Þar blaktir rússneski fáninn við hún en ástandið almennt er skelfilegt. Fjöldagrafir eru út um allt, sorp er ekki hreinsað og fráveitukerfi fyrir skólpið virkar ekki, að því er fram kemur í lýsingu Vadyms Boichenko borgarstjóra Mariupol.
„Það eina sem þetta getur leitt af sér er að fleiri veikist. Læknar okkar segja að í sumar gætum við búist álíka mörgum látnum af þeim sögum eins og úr þessu grimmilega stríði. Við erum að tala um að þúsundir manna deyi í Mariupol,“ segir Boichenko.
Þá eru vöruflutningar byrjaðir um höfnina, en aðeins til og frá Rússlandi. Vörur sem eiga að fara annað, bíða enn þá.