Aldrei hefur meiri afli komið á land á strandveiðum en í nýliðnum maímánuði. Þegar virðist ljóst að útgefnar veiðiheimildir dugi ekki út tímabilið.
Það var glampandi sól og gott sjóveður þegar við hittum strandveiðisjómenn og hafnarverði á bryggjunni á Siglufirði fyrir helgi. Þar landa reglulega um 30 strandveiðibátar og því er oft mikill handagangur í öskjunni.
„Gengið mjög vel miðað við árstíma“
„Það hefur gengið mjög vel miðað við árstíma,“ sagði Friðþjófur Jónsson, yfirhafnarvörður. „Þetta byrjaði bara mjög vel í maí, menn hafa svona heilt yfir verið með skammtinn og er misjafnt eins og gengur og gerist. En bara búið að vera mjög gott.“
„Fer mikið vestur á Fljótamið“
Guðbrandur Jóhann Ólafsson og afastrákurinn hans, Benedikt Þórir Jóhannsson, róa saman á strandveiðum. Guðbrandur segist ekki sækja eins langt og margir kollegar hans, en bátarnir fari mislangt eftir aflanum. „Hraðskreiðustu bátarnir fara vestur á Skagagrunn en ég fer mikið vestur á Fljótamið.“
Gott að fá að eyða tíma með afa á sjónum
Og þeir taka daginn snemma og vakna yfirleitt um þrjúleytið. Benedikt finnst ekkert mál að vaka svona snemma. „Það er ekkert mál, bara að venjast því og þá er það bara allt í lagi.“ Hann býr í Breiðholti í Reykjavík og líkar vel á sjónum með afa sínum. „Bara að fá smá pening og eyða smá tíma með afa. Þetta er krefjandi og skemmtilegt.“
Telja að aflaheimildir endist varla út júlí
Nú er sjöunda vikan hafin á strandveiðum og 22 veiðidagar búnir af þeim 48 dögum sem áætlaðir eru til 31. ágúst. Tæp 5.300 tonn eru komin á land og ef fram fer sem horfir endast þau 11.100 tonn sem úthlutað er til veiðanna varla út júlí.
„Blóðugt að þurfa að hætta þegar vertíðin stendur sem hæst“
Friðþjófur segir að við það séu menn ekki sáttir. „Það er náttúrulega besti tíminn fram undan hjá okkur, ágúst. Þannig að það er náttúrulega blóðugt að þurfa að hætta þegar vertíðin stendur sem hæst.“