Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir konu rétt fyrir tvö í dag. Konan er með heilabilun en líkamlega hraust og hafði síðast sést til hennar fara frá Hrafnistu í Hafnarfirði um 8:30 í morgun.
Skúli Jónsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ábending frá íbúa hafi borist um sjöleytið. Konan hafi þá fundist heil á húfi í rjóðri við gamla Álftanesveginn, tæpum tíu tímum eftir að síðast hafði sést til hennar.
Um sjötíu björgunarsveitamenn tóku þátt í leitinni og almenningur var beðinn um að hafa augun opin.