Davíð Snorri Jónasson var stoltur af sínu liði í gær eftir frækinn 5-0 sigur gegn Kýpverjum. Íslenska U21 liðið tryggði sér þar með sæti í umspili fyrir lokakeppni EM. Davíð ræddi um þessa kynslóð leikmanna, hvaða áhrif það hafði á liðið að þurfa að reiða sig á úrslit annars staðar og snúna hálfleiksstöðu.

Davíð Snorri Jónasson var að vonum sáttur eftir að strákarnir hans í U21 liðinu tryggðu sér í umspilið um laust sæti á lokakeppni EM. Davíð tók við liðinu í ársbyrjun 2021 og hefur gert virkilega góða hluti með liðið.

Það getur reynst liðum erfitt að þurfa að reiða sig á úrslit annar staðar, en íslenska liðið leysti verkefnið fantavel. „Við höfðum tvöföld markmið. Við vorum með það á bakvið eyrað að við gátum farið áfram. Hitt var að við ætluðum að koma út sem sigurvegarar í þessum glugga. Við settum upp lítið lokamót hjá okkur og við ætluðum að klára það í dag og vera efstir. Það var í rauninni það sem við ætluðum að gera, og ef við gerum það eru möguleikarnir okkar. Því að Portúgalirnir eru bara ansi góðir, þannig að þannig var það," sagði Davíð stoltur af sínum drengjum. 

Snúin staða var uppi í gær þar sem að Portúgalir þurftu að vinna Grikki til að Ísland gæti náð sæti í umspilinu. Í hálfleik var staðan jöfn í þeim leik en hvaða áhrif það á liðið? „Ég vissi að staðan var 0-0, en þeir höfðu ekki hugmynd um það. Minnir að það hafi verið 0-0!" Teymið hlífði því liðinu við stöðunni annars staðar og athyglinni var frekar beint að spilamennsku íslenska liðsins. „Í rauninni ætluðum við að sækja þetta, við ætluðum að skora fleiri mörk, við ætluðum að halda í boltann. Ef við þurfum að verjast þá bara verjumst við og ýtum alltaf línunni ofar. Þannig þetta var frábær seinni hálfleikur, og frábær leikur," sagði Davíð sáttur.

Næsta gullkynslóð?

Þessi kynslóð leikmanna lítur virkilega vel út, en Davíð var spurður að því hvert hann heldur að þeir geti náð. „Ég er búinn að segja það í mörg ár að Ísland á mjög efnilega fótboltamenn, og þetta er hluti af þeim. Hvort sem það eru yngri menn eða menn í A landsliðinu. Við eigum að vera bjartsýn, þetta eru strákar sem er mikið búið að tala um að séu góðir í fótbolta. Þeir eru það, líka efnilegir, en þeir eru líka með mjög sterkt hugarfar. Þannig að Íslendingar eiga að vera spenntir og stoltir af sínum fótboltamönnnum," sagði hann. U21 landsliðið í þessu verkefni var skipað leikmönnum fæddum á bilinu 2000-2004.

Aðspurður að því hver stóð upp í gærkvöld glotti Davíð við tönn, „Allir. Allir. Þú færð ekkert upp úr mér. Allir geggjaðir og liðsheildin í þessu frábær. Og ég hlakka til að fara í fleiri verkefni með þeim."

Mikil stemning var í Fossvoginum í gær þar sem ungir stuðningsmenn leiddu áhorfendur áfram í söng. Þá var víkingaklappið fræga dregið fram í leikslok. Íslenska liðið endaði í 2. sæti í riðlinum, á eftir Portúgal og á undan Grikkjum sem þeir háðu lokabaráttuna við um umspilssætið. Portúgalska liðið er feyknarsterkt en íslenska liðið var það eina sem náði að hirða stig af því í undankeppninni.

Umspilið er handan við hornið, en mótherjarnir koma í ljós 21. júní. „Við byrjum á því að draga, og það verður hrikalega gaman að fara í umspil. Við settum okkur markmið um að eiga möguleika á því að spila fleiri leiki og það er komið. Við tökum því fagnandi eins og öllum öðrum verkefnum," sagði Davíð að lokum sáttur eftir dagsverkið.