Þorsteinn Eyþórsson 68 ára gamall Borgnesingur leggur af stað í 12 daga hjólaferðalag í dag en hann ætlar að hjóla Vestfjarðahringinn, alls um 755 kílómetra. Fréttastofa tók Þorstein tali í morgun, en hann hjólar í minningu tengdasonar síns.

„Ég er svona aðeins að græja til húsbílinn fyrir konuna sem ætlar að fylgja mér eftir. Ég verð einhvers staðar að sofa,“ sagði Þorsteinn léttur í bragði. 

Átti eftir að klára hringinn almennilega

Hann stefnir á að hjóla um 71 kílómetra á dag og ætlar að hjóla í 11 daga en tekur sér einn hvíldardag á Ísafirði. Þetta er ekki fyrsta hjólaferð Þorsteins en sumarið 2015 hjólaði hann Snæfellsneshringinn og 2016 hringinn í kringum Ísland. Hann segist hafa haldið sér í ágætu formi síðan og reynir að hjóla eins mikið og hann getur. Þorsteinn fékk covid fyrir skömmu en segir að það eigi ekki að koma að sök, hann sé stálsleginn í dag. 

„Vinir mínir á Ísafirði sögðu mér að Vestfirðirnir væru hluti af hringnum þannig ég átti eftir að klára hringinn almennilega.“

Lætur gott af sér leiða

Það hefur lengi staðið til hjá Þorsteini að klára hringinn en þegar hann missti tengdason sinn ákvað hann að nú væri tíminn. Þegar hann fór hringinn í kringnum landið fyrir sex árum síðan lét hann gott af sér leiða og safnaði til styrktar ADHD samtökunum. Í þetta skiptið ætlar hann að styrkja Píeta samtökin. 

„Ég byrjaði að hjóla fyrir átta árum mér til heilsubótar. Upphaflega var þetta til að reyna á sjálfan mig en ég ákvað að vera með söfnun fyrir Píeta samtökin. Ástæðan er að tengdasonur minn tók líf sitt í vetur, það var nú eiginlega þá sem ég ákvað að láta loksins verða að þessu, svona til minningar um hann. “

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Þorsteins á Facebook.