Móðir tæplega fimmtán mánaða drengs sem bíður eftir leikskólaplássi varð að segja starfi sínu lausu vegna leikskólavanda. Hún fór í starf á næturvöktum um helgar til að fjölskyldumynstrið gengi upp. Hún telur útilokað að staðið verði við loforð um að tólf mánaða börn komist á leikskóla í Reykjavík í haust.
Agla Þorsteinsdóttir og fjölskylda er búin að reyna margt til að koma Eysteini Inga á leikskóla en allt kemur fyrir ekki. Eins og greint var frá í hádegisfréttum útvarps verður ekki hægt að standa við fyrirheit um að öll börn frá tólf mánaða aldri fái leikskólapláss með haustinu. Eysteinn Ingi er á mörgum biðlistum. Barnalán er á heimilinu því þrjú börn hafa fæðst á fjórum árum. Þau tvö eldri eru þegar á leikskóla en því er ekki að skipta með yngsta drenginn. Um tvö hundruð börn bíða eftir leikskólarými í borginni.
„Hann er að verða fimmtán mánaða og við sjáum ekki fram á leikskólapláss fyrr en næsta haust, þá verður hann orðinn 30 mánaða gamall.“ „Það er ekki alveg í samræmi við tólf mánuði sem að talað hefur verið um að yrði frá og með þessu hausti?“ „Þvert á móti. Við héldum, foreldrarnir, að við værum að spila leikinn rétt og ég deildi mínu orlofi á 14 mánuði og á þá inni sumarleyfi og ætluðum að láta þetta ganga með púsluspili með pabbanum þangað til í ágúst í haust þegar við gerðum ráð fyrir að fá pláss en hann er númer 18 á biðlista hér í hverfinu, 19 á öðrum, þannig að við sjáum ekki alveg fram á leikskólapláss í bráð.“
Agla starfaði sem forstöðukona á frístundaheimili en hefur sagt því starfi lausu vegna þeirra aðstæðna sem upp eru komnar.
„Þeir byrja allt of seint að byggja þessa leikskóla og staðan er kannski sérstaklega slæm í okkar hverfi hérna í Laugardalnum og í Langholtshverfi, bara komin ný Vogabyggð og ekki nýr leikskóli opnaður þar. Eins er leikskólum lokað vegna myglu og framkvæmda þannig að það er bara ekki nógu vel að þessu staðið.“
Vandinn er margþættur segja forsvarsmenn skólamála í borginni. Erlent vinnuafl sem laðað er til landsins þarf leikskólapláss fyrir börnin, stríð í Úkraínu, flóttamenn í kjölfar þess með fjölskyldur, vöruskortur við byggingu leikskóla og lagfæringar á húsnæði vegna myglu og meiri fjölgun borgarbúa en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir nýr formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vill leggja sitt af mörkum til að öll börn í höfuðborginni eigi gott og öruggt leikskólapláss við eins árs aldur. Hún telur mikilvægt að auka samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í leikskólamálum.
„Við myndum náttúrulega gjarnan vilja að við gætum lofað öllum leikskólaplássi næsta haust. Við getum í raun ekki gert það miðað við hvernig staðan er núna en við getum hins vegar sagt að öllum líkindum á þessu skólaári í Reykjavík þá munu flest börn sem eru 12 mánaða frá fyrsta september komast að.“