Lögmaður nígerísks karlmanns sem hlaut tveggja mánaða dóm fyrir peningaþvætti segir að kostnaður íslenska ríkisins vegna málsins hlaupi á tugum milljóna króna. „Það má velta fyrir sér hversu langt menn eiga að ganga hverju sinni við að ná fram refsingu,“ segir Bragi Björnsson lögmaður. Landsréttur dæmdi ríkið í dag til að greiða manninum 19 milljónir króna í bætur fyrir að sæta gæsluvarðhaldi að ósekju í níu mánuði.
Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í ellefu mánuði en hlaut að lokum fangelsisdóm upp á tvo mánuði. Lögmaður mannsins telur að þetta sé í fyrsta skipti sem dæmdar eru bætur vegna þess að varðhald er lengra en dæmd refsing.
Höfuðpaurinn Sly blekkti s-kóreskan fiskkaupanda
Upphaf málsins er þannig að tölvuþrjótar komust árið 2015 yfir tölvupóstssamskipti milli Nesfisks og fiskkaupanda í Suður-Kóreu. Þrjótarnir seldu óþekktum manni upplýsingarnar. Sá maður, sem sakborningar í málinu þekkja undir nafninu Sly, blekkti fiskkaupandann til að leggja peninga, um 54 milljónir króna, inn á annan reikning en hjá Nesfiski. Sly fékk svo fólk til að koma peningunum frá Íslandi og til sín.
Lögregla hefur aldrei haft hendur í hári höfuðpaursins Sly en þrír Íslendingar voru dæmdir í Landsrétti fyrir peningaþvætti af ásetningi og hlutu 8-12 mánaða fangeslsi.
Sat 9 mánuðum lengur í fangelsi en dæmdur til
Þá var einn nígerískur karlmaður búsettur á Ítalíu dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti af gáleysi. Þegar dómurinn var kveðinn upp hafði maðurinn setið níu mánuðum lengur í varðhaldi en dómurinn sagði til um. Hann fór þess vegna fram á bætur frá íslenska ríkinu. Margt er sérstakt við mál mannsins. Eitt er fjöldi dómsmálanna.
„Niðurstaðan er sú að ég er í raun og veru búinn að flytja sjö sinnum mál fyrir hann. Vegna þess að í sakamálinu þurfti að endurflytja málið í héraði og líka fyrir Landsrétti. Og svo bótakrafan, einkamálið sem við vorum að fá Landsréttardóm í, við þurftum líka að flytja það tvisvar í héraði,“ segir Bragi Björnsson lögmaður. Þetta var ýmist vegna anna dómara eða vanhæfis.
Landsréttur hækkaði bæturnar
Landsréttur dæmdi í dag ríkið til að greiða Nígeríumanninum nítján milljónir króna í bætur, og hækkaði því bótafjárhæðina sem var fjórar og hálf milljón í héraði. Maðurinn var handtekinn á Ítalíu og sat þar í gæsluvarðhaldi áður en hann var framseldur til Íslands. Landsréttur telur það varðhald með þegar bótafjárhæðin var ákveðin. Ríkið getur áfrýjað dómnum.
Hefur það áður gerst svo þú vitir til að fólk fái bætur fyrir að sitja lengur í varðhaldi heldur en refsingin er? „Nei, ég veit ekki til þess,“ segir Bragi.
Kostnaður íslenska ríkisins vegna máls Nígeríumannsins sem lauk með tveggja mánaða fangelsi er mikill.
„Kostnaðurinn við þetta mál er umtalsverður. Hann hleypur á tugum milljóna kostnaður við alla anga þessa mál,“ segir Bragi.
Myndirðu segja að það væri skynsamlegt af hálfu ríkisins að fara út í allan þennan kostnað fyrir tvo mánuði?
„Ég skil að lögreglan hafi óskað eftir að minn skjólstæðingur hafi verið fluttur til landsins til að afla upplýsinga en það má velta fyrir sér hversu langt menn eiga að ganga hverju sinni við að ná fram refsingu,“ segir Bragi.