Fyrsti þátturinn af fjórum sem ber nafnið „Förum á EM“ verður á dagskrá RÚV í kvöld. Þar verða helstu leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta sem er á leið á EM í Englandi í næsta mánuði kynntir til sögunnar. Atriði úr þætti kvöldsins má sjá hér í færslunni. Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson stýra þættinum.

Í þætti kvöldsins heimsækir Benedikt þær Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Svövu Rós Guðmundsdóttur til Bergen í Noregi þar sem þær leika með Brann. Fannar Sveinsson tekur svo hús á þeim Glódísi Perlu Viggósdóttur, Cecelíu Rán Rúnarsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur sem leika með Bayern í München í Þýskalandi. Fannar spurði þær meðal annars um það hvort þær væru mikið saman utan æfinga.

„Já, við erum eiginlega alltof mikið saman,“ sagði Karólína Lea. „Ég og Cessa búum næstum því saman og svö förum við í mat til mömmu Gló,“ sagði Karólína. Glódís er elst af Íslendingunum þremur í Bayern. Hún er 26 ára en Karólína að verða 21 árs og Cecilía að verða 19 ára. „Hún er langelst,“ sagði Karólína glottandi eins og sjá má í atriðinu úr þætti kvöldsins hér í spilaranum efst í færslunni.

Fyrsti þátturinn af Förum á EM er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 19:40 strax að loknum íþróttum og veðri.