Mikil ánægja ríkir á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík með hjólreiðatúra sem íbúum standa til boða. Hjólavinur og fyrrverandi starfsmaður hjólavinur segir að verkefnið sé nauðsynlegt fyrir öll dvalarheimili landsins.

Sjálfboðaliðar í hlutverki hjólavina

Dalbær er eitt þeirra dvalarheimila sem taka þátt í verkefninu Hjólað óháð aldri á vegum Hjólafærni. „Ég kem hingað upp á Dalbæ svona annað slagið, þegar ég hef tíma og tækifæri til, þegar ég á lausar stundir, og ég hjóla á þessu tryllitæki hér sem hefur fengið nafnið skemmtiskutlan,“ segir Arnar Símonarson, einn af hjólavinum Dalbæjar.

Rúntarnir alltaf fjölbreyttir

Arnar segir að það sé misjafnt eftir dögum hve margir rúntar séu farnir en þeir séu alltaf fjölbreyttir. „Fólk vill fara í bankann og það vill fara í búðina, við förum í Olís og fáum okkur ís, förum stundum á kaffihúsið og íbúarnir fá sér þá bjór eða eitthvað annað, svo förum við upp í kirkjugarð stundum.“

„Fólk kemur til baka svolítið endurnært“

Arnar segir að svona hjól ætti að vera á hverju dvalarheimili, enda sé ávinningurinn mikill bæði fyrir íbúa og starfsfólk. „Þetta er dásamlegt, að komast út með íbúana og sjá þá brosa og fá smá roða í vangann.“ Hann segir að það sé mikill munur á fólkinu frá því að hjólið kom til sögunnar. „Við sjáum gleðina og hérna frískleikann og fólk kemur til baka svolítið endurnært,“ segir Arnar.

Gott að komast út í ferskt loft

Íbúarnir taka undir með Arnari. Kristján Loftur Jónsson er einn þeirra sem nýta sér þessa þjónustu. Hann segir gott að komast út í hjólreiðatúr og fá ferskt loft og bætir við að uppáhalds áfangastaðir hans séu kaffihúsið eða sjoppan þar sem hann fær sér ís þegar vel viðrar.

„Lífið er þarna úti, við þurfum bara að ná í það“

Arnar segir að það sé óþarfi að óttast hækkandi aldur. „Að verða gamall, þá þarftu ekkert að hverfa út úr lífinu, lífið er þarna úti, við þurfum bara að ná í það.“