Vladimír Pútín verður farinn frá völdum eftir þrjá til sex mánuði segir Christopher Steele, fyrrverandi yfirmaður Rússlandsdeildar bresku leyniþjónustunnar, MI6. Steele rekur nú eigið fyrirtæki en hefur enn náin tengsl við MI6 og bandarísku leyniþjónustuna CIA. Steele sagði ennfremur að margt benti til þess að heilsu Pútíns hefði hrakað og það veikti stöðu hans innan rússneska stjórnkerfisins. Örlög Rússlandsforseta væru þó tengd því sem gerðist á vígvellinum í Úkraínu.
Christopher Steele lét þessi ummæli falla í fréttaskýringaþætti breska ríkisútvarpsins World at One. Spádómar Steele voru til umræðu í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Steele vakti athygli árið 2016 þegar hann birti skýrslu, The Steele Dossier, þar sem því var haldið fram að Rússar styddu Donald Trump með ráðum og dáð í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember 2016.
Hörmulega misheppnuð innrás
Christopher Steele segir að Rússar ætli sér að lýsa yfir sigri í hernaðaraðgerðum sínum í Úkraínu þó að innrás þeirra hafi misheppnast alvarlega. Því fari fjarri að yfirlýsingar Rússa um að allt gangi samkvæmt áætlun séu sannar. Það hafi sýnt sig að rússneski herinn sé illa þjálfaður, agalaus og hafi ekki náð settum markmiðum. Rússar standi frammi fyrir auðmýkingu en stríðið gæti varað í marga mánuði enn.
Harðlínumaður tæki við af Pútín
Steele telur að láti Pútín af völdum á næstu mánuðum verði eftirmaður hans harðlínumaður. Sá eftirmaður reyndi líklega að enda stríðið og skella skuldinni á Pútín, það væri siður Rússa að kenna fyrirrennara um mistök. Nýr ráðamaður í Kreml myndi líklega að reyna að semja um lok stríðsins.