„Ég geri alltaf mitt besta til að kjósa „rétt“ en get þó varla sagt að sú ákvörðun sé byggð á öðru en eigin innsæi – sem þýðir efalaust ekki annað en að ég kjósi nákvæmlega eins og búist er við af mér; í fullkomnu samræmi við mann í minni stöðu, með mína menntun, minn bakgrunn og mitt eignarhald.“
Björn Halldórsson skrifar:
Þegar ég var spurður hvort ég hefði áhuga á að skrifa pistla sem yrðu fluttir í útvarpi allra landsmanna voru mín fyrstu viðbrögð að segja nei. Ástæðan er einföld; ég er ekki sérlega pólitískur. Ég tapa flestum rifrildum og á almennt erfitt með að standa með eigin sannfæringu. Ég hugsaði sem svo að slíkur vindsokkur ætti ekkert erindi í útvarp og væri til lítils annars fær í pistlaskrifum en að sökkva sér í eigin sjálfhverfu. (Það má kannski segja að ég hafi ekki haft alfarið rangt fyrir mér með það.)
Ég er nefnilega bæði heillaður og forviða yfir færni samborgara minna til að meðtaka fréttaefni og snúa sér við á punktinum til að gera grein fyrir skoðunum sínum á málinu – jafnvel í 140 stafabilum eða færri. Þegar kemur að því að mynda sér skoðun á málefnum líðandi stundar þá er viðbragðstími minn hinsvegar til háborinnar skammar. Þegar aðrir setja hnefann í borðið og segja hvað þeim finnst stend ég mig að því að humma og og draga mig í hlé á meðan ég reyni að gera upp eigin tilfinningar. Síðan, þegar ég tel mig loksins vera kominn með skýra niðurstöðu, og ætla mér að bera hana á borð fyrir annað fólk, þá gerist það oftar en ekki að viðmælendur mínir benda á ýmsa vankanta á hugsanagangi mínum, og koma með nýjar upplýsingar sem ég hafði ekki tekið inn í myndina. Ég sé mér þá þann kost vænstan að hörfa aftur undir feldinn og gera aðra tilraun til að komast til botns í málinu. Þessar bollaleggingar gera það að verkum að þegar ég loksins veit fyrir víst hvað mér finnst um tiltekið málefni hefur umræðan yfirleitt haldið sína leið, og fólk er farið að takast á um önnur bitbein.
Kannski er það einmitt út af því hve tvístígandi ég sjálfur er þegar kemur að stjórnmálum sem hef ég alltaf dáðst að fólki sem býr yfir pólitískri sannfæringu. Ég er þakklátur fyrir störf aktívista og þrætugjarnra almennra borgara sem eru tilbúnir að fórna tíma sínum og jafnvel andlegu eða líkamlegu öryggi í von um betri kjör og bættan heim – oft fyrir fólk sem er í allt annarri samfélagsstöðu en þau sjálf. Ég geri samt mitt besta til að sýna stuðning í verki, reyni að vera meðvitaður um eigin fordóma, beita fyrir mig samkenndinni og mæta reglulega á mótmæli – ef ég á fría stund og aðrar skyldur standa ekki í vegi. Þar stend ég þó yfirleitt aftast og muldra slagorðin, eins og barn á skólaskemmtun sem hefur verið neytt upp á pall til að syngja Heims um ból með restinni af árganginum. Líklega er ég þó bara týpískur þátttakandi í fulltrúalýðræðinu, sem lætur sér nægja að mæta á kjörstað og láta atkvæðið tala fyrir sig. Ég geri alltaf mitt besta til að kjósa „rétt“ en get þó varla sagt að sú ákvörðun sé byggð á öðru en eigin innsæi – sem þýðir efalaust ekki annað en að ég kjósi nákvæmlega eins og búist er við af mér; í fullkomnu samræmi við mann í minni stöðu, með mína menntun, minn bakgrunn og mitt eignarhald.
Engu að síður hefur þessi pólitíski roluháttur minn oft valdið mér hugarangri, einkum vegna þess starfsvettvangs sem ég hef valið mér. Það virðist vera ætlast til þess af rithöfundum að þeir séu með sterkar skoðanir og láti sig málefni líðandi stundar varða. Ég hef reynt að hugga mig við að eftir allt sé það í eðli starfsins að taka sér sinn tíma. Það tekur langan tíma að skrifa bók, og þegar hún kemur loksins fyrir augu lesenda er ég sem höfundur búinn að hugsa rækilega um hvern staf og hverja hreyfingu og hverja hugsun persónanna. Þannig hef ég reynt að bera fyrir mig að skrifin séu andsvar mitt við þeim áleitnu spurningum sem hvíla á okkur í dag, og að markmið mitt sem höfundur sé að sýna hvernig mannskepnan lifir og hrærist undir því álagi. Ég hef oft haft eftir orð George Orwell, sem sagði: „engin bók er í raun og veru laus við pólitíska slagsíðu.“ Gott og vel, hugsa ég, ég þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.
Nýverið rakst ég einmitt á gömlu Penguin útgáfuna mína af ritgerðum Orwells. Ég man ansi skýrt eftir því þegar ég las þetta litla hefti í fyrsta sinn. Ég var tvítugur, nýútskrifaður úr Menntaskólanum við Sund, og hafði ekki hugmynd um hvað ég ætlaði mér að gera við líf mitt – þótt ég vissi að það hefði eitthvað að gera með bækur og skrif. Kiljueintakið mitt af ritgerðum Orwells er allt útkrotað eftir þennan dreng, sem ekki var enn farinn að segja orðin „ég ætla að verða rithöfundur“ upphátt við einn né neinn – ekki einu sinni sjálfan sig. Kannski var það þess vegna sem ritgerðin Why I Write, eða „Hvers vegna ég skrifa“, hafði svo mikil áhrif á mig að ég man enn tilvitnunina sem ég fór með hér að ofan.
Ég man líka að í þetta fyrsta sinn sem ég las ritgerðina var ég hálf uggandi yfir útlistun Orwells á því hvað það væri sem ræki hann og samhöfunda hans áfram í ritstarfinu; driffjaðrirnar fjórar sem hann taldi búa í brjósti allra rithöfunda. Ég var nokkuð viss um að engan slíkan innri mekanisma væri að finna í litla mér. Hvað átti Orwell til dæmis við með því að telja til „einskæran egósisma“ og „þrá eftir því að virðast snjall, að vera umtalaður“ í fyrstu ástæðu sinni sinni fyrir því að gerast rithöfundur? Þýddi þetta að allir rithöfundar væru narsisistar, og ég sjálfur narsisti að sækjast eftir slíkum félagsskap? (Ekki alveg útilokað, hugsa ég með sjálfum mér, þar sem ég renni yfir naflaskoðanir mínar hér að ofan.) Ég tengdi þeim mun meira við driffjöður númer tvö, þar sem hann talaði um „fagurfræðilegan eldmóð“ og „skynnæmi á fegurð í umheiminum, eða ¼ í orðum og réttri skipan þeirra.“ Þar þekkti ég sjálfan mig sem ástríðufullan lesanda með miklar skoðanir á því hvað góð bók hefði til að bera. Driffjöður númer þrjú – „Söguleg hvöt.“ — gerði hins vegar lítið fyrir mig, enda var ég enn of ungur til að gera mér fulla grein fyrir hverfulleika veraldarinnar og samferðafólks míns.
Ég man þó mest eftir því hvað mér þótti einkennilegt að höfundur Dýrabæjar og Nítjánhundruðáttatíuogfjögur, hverjar ég hafði lesið í enskuáföngum í menntaskóla, skyldi setja „pólitískan tilgang“ í fjórða og síðasta sæti á listanum. Í raun kom það mér á óvart hve hugsi Orwell virtist vera yfir pólitískri slagsíðu eigin verka. Hann tók til að mynda fram að í sínu tilviki ættu fyrstu þrjár driffjaðrirnar í raun að hafa haft mun meira vægi en sú fjórða, og hljómaði hálf-raunamæddur þegar hann viðurkenndi að hann hefði, sökum tímanna sem hann lifði, neyðst til að gerast „nokkurs konar smáritahöfundur“ – eða pamphleteer, sem er hálfgert skammaryrði sem á upptök sín hjá róttækum aktívistum sinna tíma, sem dreifðu á götum úti bæklingum sem innihéldu skoðanir þeirra um pólitík og trúmál. Eins og hann lýsir því sjálfur:
„Hver lína sem ég hef skrifað af viti eftir 1936 er skrifuð, beint eða óbeint, gegn alræðishyggju og í þágu lýðræðislegs sósíalisma. Í mínum augum er það vitleysa, á tímum eins og við lifum núna, að halda að maður geti komist hjá því að skrifa um slík málefni. Allir skrifa um þau í einni mynd eða annarri.“
„Á tímum eins og við lifum núna.“ Hvað sem það var sem Orwell átti nákvæmlega við með þessum orðum – nýlendustefnu, heimstyrjaldir, helförina eða uppgang fasismans – þá er ljóst að þau gætu allt eins átt við tímana sem við lifum núna, þegar yfir okkur vofa loftslagshamfarir, iðnvæddur hernaður, óendanleg stríð, skotárásir á skólalóðum og uppgangur fasismans að nýju. Hlutirnir sem við erum líklega öll að skrifa um núna, í einni mynd eða annarri.
Þegar ég les yfir ástæðurnar fjórar sem Orwell telur upp fyrir því að gerast rithöfundur, núna tuttugu árum eftir að ég komst fyrst í tæri við þær, þá verð ég að viðurkenna að í þeim er að finna eitt og annað sem ég ber kennsl á í eigin skapgerð og verkum. Engu að síður finnst mér ég engu nær því að skilja af hverju ég valdi að skrifa. Ég býst við að ég verði því bara að halda áfram að krossa fingur og vona að það búi einhverjar góðar og gildar ástæður að baki því.