Sterkar vísbendingar eru um að hópur fullorðinna einstaklinga með fötlun eða geðræn vandamál hafi sætt illri meðferð á árum áður. Mikilvægt er að það verði dregið fram í dagsljósið, að mati starfshóps sem leggur til tvískipta rannsókn á aðbúnaði þeirra og meðferð, allt aftur til ársins 1970.
Forsætisráðherra skipaði starfshópinn árið 2020, í framhaldi af umfjöllun RÚV um illan aðbúnað á vistheimilinu Arnarholti. Hópnum var falið að gera úttekt og undirbúa rannsókn á vistheimilum ríkisins um allt land. Slík rannsókn hefur aldrei áður verið gerð. Hópurinn skilaði í dag umfangsmikilli skýrslu á hátt í níutíu blaðsíðum.
„Ef ég bara horfi á heildarniðurstöðuna að þá eru auðvitað vísbendingar um að víða hafi verið pottur brotinn,” segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Skýrslan var afhent Alþingi síðdegis. Í henni er lagt til að rannsóknin verði tvískipt; annars vegar rannsókn á tímabilinu frá 1970 til 2011 sem beinist meðal annars að því að skoða reynslu fólks af dvöl á stofnunum, leiða í ljós hugsanlega illa meðferð og hvort yfirvöld hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu. Hins vegar að rannsókn sem nær frá árinu 2011 til dagsins í dag og snýr að því að fá heildstæða mynd af aðbúnaði og meðferð.
„Þau leggja áherslu á það líka, sem mér finnst mikilvægt, að kallað verði til fatlað fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda, að það verði í raun hluti af nefndinni sem fari með rannsókn málsins þannig að við höfum sjónarmið þeirra við borðið frá upphafi,” segir Katrín.
Þá segir í skýrslunni að þrátt fyrir að rannsókn sé ætlað að leggja sérstaka áherslu á nýliðin ár sé mikilvægt að skoðaður verði aðbúnaður og meðferð fatlaðs fólks aftur í tímann. Sterkar vísbendingar séu um að sá hópur hafi sætt illri meðferð á árum áður og mikilvægt að það sé dregið fram í dagsljósið. Fréttaflutningur af illri meðferð vistfólks á Arnarholti á áttunda áratugnum undirstriki mikilvægi þess að slík skoðun fari fram.
Einskorðast ekki aðeins við Arnarholt og Kópavogshæli
Þá hafi verið fjallað um slæmar aðstæður á Kópavogshæli og telur hópurinn að ekki sé hægt að ætla að vanræksla og ill meðferð hafi einskorðast við einstakar stofnanir. Skýrslan gefur jafnframt til kynna að margar stofnanir hafi enn ekki hlotið ytri úttekt og að víða sé innra eftirlit ekki skilvirkt. Enn fremur bárust nefndinni afar takmarkaðar upplýsingar frá ýmsum sveitarfélögum, sem forsætisráðherra segir að sæti furðu.
„Þau hafa verið starfandi töluvert lengi og unnið að því að afla upplýsinga hringinn í kringum landið. Það hefur verið ákveðnum erfiðleikum háð þannig að það kemur aðeins á óvart en heildarniðurstaðan er sú að það sé full ástæða til þess að rannsaka betur aðbúnað fullorðins fatlaðs fólks, bæði með geðraskanir og þroskahömlun.“