„Ég hef oftar en einu sinni orðið vitni að því hve fólk verður hvumsa þegar því er sagt að það megi ekki taka myndir þar inni. Það er greinilega alls óvant því að vera í rými þar sem slíkt er ekki leyft. Sumir bregðast jafnvel við eins og það sé hálfgert mannréttindabrot að eiga sér stað.“


Björn Halldórsson skrifar:

Ég hafði engan veginn ætlað mér að verða dyravörður en var ráðinn á staðnum þegar ég kom aftur í bæinn á miðju sumri, í leit að vinnu eftir hrakfarir í ferðamannabransanum úti á landi. Ég þáði giggið með þökkum og var mættur í gættina sama kvöld. Barinn var einn af vinsælustu stöðum bæjarins og stappfylltist iðulega eftir miðnætti um helgar. Það gekk á ýmsu á þessum vöktum. Ævintýri sem voru sum hver skemmtileg og eftirminnileg en önnur ekkert nema helvítis vesen og leiðindi. Öll roðna þau þó í æskuljóma þegar ég horfi til baka núna – þegar maður hefur lært að njóta helganna án hausverksins sem fylgdi þeim iðulega í eina tíð.

Mér tókst blessunarlega að komast hjá flestum slagsmálum í hurðinni, og gat yfirleitt talað fólk niður ef eitthvað kom upp á. Þetta var fyrir þann tíma þegar dyraverðir gengu í merktum jökkum. Það voru engar keðjur sem mörkuðu hvar fólk átti að standa í röð heldur mynduðu vongóðir gestir bara þvögu beint fyrir framan hurðina, sem var með stórum glugga með öryggisgleri sem var reglulega sparkað í mola. Til að hleypa út þurftum við að þrýsta mannmergðinni frá með hurðinni og ryðja leiðina svo gestir staðarins gætu haldið áfram á næsta bar, síðan hreinlega handlanga og toga fólk inn á staðinn. Þótt það sé langt síðan ég entist síðast til lokunar þá sýnist mér djammið eilítið skipulagðara núna. Fólk virðist rólegra yfir því að bíða í röð – eitthvað sem okkur hefur aldrei verið sérlega tamt á þessu fámenna skeri – og dyraverðirnir eru, að mér sýnist, fleiri á vakt og skipulagðari en við vorum þá. Þvagan sem lá á rúðunni á hverju föstudags- og laugardagskvöldi virðist vera – eins og það er kallað – „barn síns tíma“.

Fyrir utan að handlanga fólk inn og út og telja hausa þá sneri stór hluti af starfinu í hurðinni að því fylgjast með hvort verið væri að taka myndir inni á staðnum. Barinn var með bann við slíku. Þetta var óvanalegt þá og þykir stórskrítið núna, en það ber kannski að hafa í huga að árin upp úr aldamótum voru gullöld vikuritsins Séð og heyrt, og ekki voru nema nokkur ár síðan PoppTíví hafði reynt fyrir sér með þáttum þar sem fylgst var með fólki á djamminu. Margur lenti í því að sjá sjálfan sig á skjánum daginn eftir með hálfvitalegt glott á vör án þess að muna neitt eftir neinu. Ef ég varð var við myndavélaflass þurfti ég að snara mér að fólki og láta vita að myndatökur væru ekki leyfðar. Í minningunni brugðust flestir frekar vel við þessum tilmælum. Fólk sagði: Úps, sorrí! Vissi ekki! – og málið var dautt. Beiðnin um að láta vera að taka myndir þótti ekki það ósanngjörn. Þótt flestir landsmenn væru búnir að skipta filmum fyrir pixla, sem gerðu þeim kleift að spandera myndum frjálslegar en áður, þá var það samt enn frekar óalgengt að fólk tæki myndavél með sér á djammið – eða nokkuð annað en í sumarfrí eða jólaskemmtanir.

Ég fer enn reglulega á gamla vinnustaðinn minn, þótt ég hafi ekki tekið vakt þar árum saman, og sé nú gjarnari á að vera kominn heim fyrir kvöldmat frekar en morgunmat. Í rauninni hefur staðurinn breyst óvenju lítið miðað við flesta íslenska bari, sem eiga sér almennt ekkert sérstaklega langt líf, og virðast opna og loka á sömu hornunum ár eftir ár undir nýjum merkjum – eða einhverjum gamalkunnum merkjum sem vongóðir vertar eru sífellt að reyna að endurvekja. Þrátt fyrir að vera, líkt og þvagan sem lá á hurðinni í eina tíð, „barn síns tíma“ þá stendur reglan um engar myndatökur enn þá. Viðbrögðin við henni hafa hins vegar breyst töluvert, líkt og allt okkar samband við myndatökur og ljósmyndir. Ég hef oftar en einu sinni orðið vitni að því hve fólk verður hvumsa þegar því er sagt að það megi ekki taka myndir þar inni. Það er greinilega alls óvant því að vera í rými þar sem slíkt er ekki leyft. Sumir bregðast jafnvel við eins og það sé hálfgert mannréttindabrot að eiga sér stað. Kannski er það ekki að furða. Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.

Mögulega er full dramatískt að stilla þessu upp þannig. Þetta eru jú bara myndir. Samt held ég að við mættum oftar staldra aðeins við þegar við smellum af mynd og velta fyrir okkur hver hafi álpast inn í rammann og hvað viðkomandi finnist um að vera þar. Kannski eru það samt óþarfa bollaleggingar. Við erum flest hver orðin vön því að vera í mynd hvar sem við förum, og erum hætt að líta upp eða hika við þegar við ráfum inn í myndaramma annars fólks. Sjálfur stytti ég mér leið yfir Skólavörðuholtið á hverjum degi, og velti stundum fyrir mér á hve mörgum hundruðum eða þúsundum mynda af Hallgrímskirkjuturni sem fólk hefur heim með sér eftir dvöl á Íslandi megi sjá mig í einu horninu, að svelgja í mig morgunkaffið og hraða mér til vinnu. Þar að auki er það aðallega við sjálf sem við föngum með myndavélunum okkar, ekki annað fólk. Símarnir okkar eru meira að segja með tvær linsur; eina fyrir heiminn og aðra sem er bara fyrir okkur.

Hér væri auðvelt að fara rakleitt í það að tuða um gamla tíma og heim sem versnandi fer, en þá er gott að minna sig á það góða sem þessi þróun hefur óneitanlega haft í för með sér. Okkur er fært að deila umhverfi okkar og daglegu lífi með okkar nánustu umsvifalaust, sama þótt þau séu óralangt í burtu, og styrkja þannig stoðirnar í samböndum okkar við vini og fjölskyldu. Þar að auki má færa rök fyrir því að einhverjar af þeim mannréttindahreyfingum sem við höfum séð ryðja sér til rúms undanfarin ár megi rekja til valdeflingar almennra borgara í gegnum aukið aðgengi að myndavélum, sem gera fólki kleift að fanga og dreifa sönnunum fyrir ofríki og kerfisbundnu ofbeldi, áreitni og misrétti.

Engu að síður – og það má ekki gleyma því að mögulega er þetta enn eitt af ótöldum forréttindum mínum sem hvítur kallakall – finn ég alltaf fyrir vissum léttleika þá sjaldan að ég álpast inn í myndavélalaus rými. Það hefur svosem lítið að gera með bari og fyllerísraus í dag –ég held og vona að ég sé búinn að klára flesta mína skandala á því sviði. Það hefur þeim mun meira að gera með sundlaugar. Það má kannski kalla það einfeldni, eða forréttindablindu, eða villuráfandi jákvæðni, en í hvert sinn sem ég fer í sund hér á landi og læt mig líða niður í heitan pott með öðrum sundgestum, velti ég fyrir mér hvort laugarnar okkar séu kannski besti – eða að minnsta kosti skásti – jafnréttisvettvangurinn sem við höfum úr að ráða sem þjóð. Hér sitjum við öll saman, í sama vatninu, án fata og farsíma, óháð aldri, litarhafti, þjóðerni eða útliti. Og þótt ég eigi erfitt með að setja fingur á það þá kemst ég ekki hjá því að hugsa að þetta óvanalega andvaraleysi í borgarlandslaginu hljóti hreinlega að hafa eitthvað með það að gera að hér séu engir símar, og engar myndatökur leyfðar.