Fjöldi grænlenskra kvenna hefur stigið fram og lýst líkamlegum og andlegum sársauka sem þær hafa þurft að lifa við alla tíð síðan að getnaðarvörnin lykkjan var sett upp í leg þeirra á unglingsaldri án samþykkis þeirra eða jafnvel vitneskju.

„Mér fannst það ofbeldi að yfirvaldið tæki meydóm minn,“ segir Naja Lyberth sem var fjórtán ára þegar hún mátti þola aðgerðir danskra stjórnvalda sem höfðu það að markmiði að draga úr fólksfjölgun á Grænlandi. „Við vorum boðaðar í árlega skólalæknisskoðun, þar sem danski héraðslæknirinn mætir í skólann. Þar fengum við að vita, hver fyrir sig, að við ættum að fara á sjúkrahúsið og fá í okkur lykkjuna,“ segir Lyberth. 

Áratugum saman ríkti þöggun um þessi mál en fyrir nokkrum árum ákvað Lyberth að skrifa um reynslu sína og birti frásögnina á Facebook. Í kjölfarið hafa hundruð frásagnir komið fram í dagsljósið. Elisibanquak Jeremiassen var þrettán ára þegar lykkjan var sett upp hjá henni. „Ég vissi ekki hvað mér leið en ég var með verki. Og var svo sagt að verkirnir ættu að hætta en ég var stöðugt með verki,“ segir Jeremiassen. 

Lykkja var á þessum tíma ekki notuð sem getnaðarvörn hjá einstaklingum  sem ekki hafa fætt börn áður - en aðgerðirnar báru tilætlaðan árangur. Fæðingum fækkaði um nærri 40 prósent. Grænlenskir stjórnmálamenn hafa krafist rannsóknar á málinu. „Það var ekkert samþykki. Foreldrar mínir voru ekki spurðir,“ segir Lyberth. Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra Danmerkur hefur sagt að honum þyki þetta leitt og að ráðuneyti hans ætli að skoða málið.