Meirihlutaviðræður í Reykjavík í dag snerust um að finna sameiginlega fleti milli flokkanna svo hægt verði að ná krafti í þá uppbyggingu húsnæðis sem þarf á næstu árum. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, sem vill að allt verði klárt eftir tíu daga þegar fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar er ráðgerður.

Það eru ekki allir svo heppnir að geta verið úti að leika sér í góða veðrinu á þessum næstum því tilbúna leikvelli í Elliðaárdalnum. Fulltrúar flokkanna fjögurra sem eru að reyna að mynda meirihluta í borgarstjórn, þau þurfa að sitja hérna í stöðvarstjórahúsinu. Þetta er fjórði dagurinn sem þau eru hér. Og það gengur erfiðlega að fá upplýsingar um það hvort þau eru yfirleitt ósammála um nokkurn skapaðan hlut. Húsnæðis-, samgöngu- og loftslagsmál voru rædd í dag. 

Þið eruð náttúrlega að ræða sama til að finna einhverja fleti sem eru kannski meiri núningsfletir en aðrir. Hvaða fletir hafa það verið nú á þessum fjórða degi? „Ég held kannski að fólk hafi fundið það í kosningabaráttunni að flokkarnir töluðu ekki alveg einum rómi í þessu og viðræðurnar ganga út á að finna sameiginlega fleti þannig að við náum þeim krafti sem þarf í þessa uppbyggingu sem þarf á næstu árum,“ segir Dagur.

Verður Reykjavíkurflugvöllur settur til hliðar? „Við erum reyndar ekki komin að flugvallarmálunum en öll þessi byggingasvæði sem hafa verið nefnd eru til umræðu.“

Geturðu nefnt eitthvað eitt sem þið eruð ekki sammála um? „Nei, viðræðurnar eru nú til þess að útkljá þetta og þær bara ganga vel í góðum anda.“

Þegar búið verður að ræða öll helstu málefnin verður verkaskipting rædd og þá þarf að skrifa samstarfsyfirlýsingu. 

„Fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar er 7. júní og mér fyndist góður bragur að vera búin með þetta þá,“ segir Dagur.