Fyrirhugað er að vísa um 300 hælisleitendum úr landi nú þegar brottvísanir eru hafnar á ný eftir Covid-19 faraldurinn. Fólkið hefur dvalið á landinu í langan tíma en í fyrsta fasa þessara brottvísana stendur til að fljúga þeim til Grikklands. Mannúðarsamtök hafa ályktað að aðstæður þar séu flóttafólki óboðlegar. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir ekki æskilegt að gera undantekningar fyrir ákveðna hópa.
„Vegna þess að þú ert þá að fara að breyta reglum, fyrir einhvert ákveðið mengi af því fólki sem er að koma á þessum forsendum. Hvað ætlum við að gera þá við fólkið sem kemur á morgun? Eiga reglurnar þá að gilda um það eða eigum við að láta gömlu reglurnar gilda um það? Bara breyta reglunum fyrir þetta fólk og ekki aðra? Bara breyta þeim fyrir Grikkland en ekki fyrir þá sem fara til Ítalíu eða annarra landa?“ Sagði Jón í Morgunútvarpinu á Rás 2 í dag.
Ekki eins einfalt og margir halda
„Þetta er ekki eins einfalt og margir vilja vera að láta, að fara inn með slík inngrip. Við eigum þá að taka okkur saman í andlitinu og breyta reglunum. Og ef það er meirihluti fyrir því á Alþingi að rýmka verulega þessar reglur þá er ekkert annað en að leggja fram frumvarp, fá það samþykkt og þá vinnum við auðvitað eftir því“ sagði Jón.
Flóttafólk búi við sömu skilyrði og Grikkir þar í landi
„Það er vissulega gagnrýnt hvernig aðstæður geti verið í Grikklandi. En það fólk sem hefur þar vernd býr auðvitað bara við sömu skilyrði og Grikkir. Það getur farið inn á vinnumarkaðinn, það býr við sömu aðstæður og Grikkir búa við“ sagði Jón.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Jón Gunnarsson úr Morgunútvarpinu, í spilaranum hér að ofan.