Hönnun skiptir máli. Það er ekki sama hvernig hlutir líta út og að greina á milli þess sem er flott og þess sem er ekki flott getur verið vandasamt. Logi Pedro Stefánsson, stjórnandi þáttanna Skapalón og fyrrverandi liðsmaður hljómsveitarinnar Retro Stefson, veit þetta vel.
Í þriðja þætti Skapalóns á RÚV, sem tileinkaður er grafískri hönnun, rifjar Logi Pedro upp þegar Retro Stefson gaf út sína fyrstu plötu, Montaña. Um leið og platan var gefin út birtist dómur um hana í Fréttablaðinu þar sem plötuumslagið var harðlega gagnrýnt.
„Því miður þótti þetta ekki nógu gott,“ segir Logi.
Umslagið var grátóna, með gráum þríhyrningi á gráum fleti, auk merkis hljómsveitarinnar sem var gult og svart. Í ljósi dómsins í Fréttablaðinu brugðu þau á það ráð að breyta umslaginu og nota mynd af hljómsveitinni í stað grátóna þríhyrningsins. Það mældist betur fyrir og Logi Pedro segir að nýja umslagið hafi orðið til þess að platan naut vinsælda. Retro Stefson uppgötvaðist þannig að ákveðnu leyti fyrir tilstilli grafískrar hönnunar.
Í Skapalóni varpar Logi Pedro ljósi á heim íslenskrar hönnunar, sögu hennar og þýðingu fyrir samfélagið. Í fyrstu tveimur þáttunum var fjallað um fatahönnun og arkitektúr en nú beinir Logi sjónum sínum að grafískri hönnun.
Í þættinum er meðal annars rætt við Sigurð Oddsson hönnuð, sem sækir innblástur í rúnir og höfðaletur, sem segja má að sé elsta íslenska hönnunin. Sigurður hefur meðal annars unnið með Þjóðminjasafni Íslands við kynningu safnsins á rúnum og höfðaletri.
Auk þess ræðir Logi Pedro við Maríu Gudjohnsen, sem er án efa einn efnilegasti grafíski hönnuður landsins. Hún lærði í Berlín og er nú við nám í New York og hefur getið sér gott orð meðal annars fyrir hönnun fyrir Reykjavíkurdætur. Hún hannaði alla sviðsmynd þeirra í Söngvakeppninni fyrr á árinu.
Einnig er rætt við þær Snæfríði Þorsteins og Hildigunni Gunnarsdóttur, sem saman mynda hönnunardúóið Snæfríð og Hildigunnur, um hönnunarferli þeirra. Þær hafa meðal annars vakið athygli fyrir umbrot bókarinnar Konur sem kjósa, sem gefin var út í tilefni aldarafmælis kosningaréttar kvenna árið 2015.
Brot úr nýjasta þætti Skapalóns má sjá hér að ofan en þáttinn í heild sinni má nálgast hér.