„Ætlum við Íslendingar að vera þjóð á meðal þjóða í náttúruvernd eða ætlum við að ganga gegn alþjóðlegum viðmiðum náttúruverndar og sitja eftir sem siðlaust eyland?” spyr Dalrún Kaldakvísl sagnfræðingur en fyrir liggur að stórhvalaveiðar hefjist í næsta mánuði við Íslandsstrendur.
Dalrún Kaldakvísl skrifar:
Tignarlegir vatnsstrókar rísa nú upp af haffletinum við Ísland. Það er maímánuður og næst stærsta skepna veraldar, langreyðurin, sýnir sig í auknum mæli á fornum ætisslóðum sínum á Íslandsmiðum. Fyrir neðan yfirborð sjávar óma djúpir tónar langreyðanna sem syngja og ræða sín á milli; tarfar, kýr og kálfar. Raddhljómar langreyðanna berast óravegalengdir um hafdjúpin; undirtónar sem tilheyrt hafa Norður-Atlantshafi frá grárri forneskju. Í hljóðheimi hafsins þá eru það söngvar langreyða sem óma hvað sterkast, því söngvar risanna geta borist hundruði kílómetra um undirdjúpin – og reyndar gott betur því samkvæmt nýrri rannsókn þrengja hljóð langreyða sér alla leið niður í jarðskorpuna. Söngvar langreyða taka breytingum milli einstaklinga, hópa og árstíða. Til að mynda syngja tarfarnir ástarsöngva sína á veturna til að draga að sér athygli kvendýranna, en talið er að söngur tarfanna geti varað allt upp í 32 hljómfagrar klukkustundir. Þessi fögru söngdýr hafsins sem nærast öðru fremur á svifkrabbadýrum, eru dökkgrá eða brúnsvört að lit að ofanverðu, og hvít að neðanverðu. Eins og áður segir þá eru langreyðar næst stærsta dýr veraldar á eftir steypireyðinni, en langreyðar geta orðið allt að 23 metrar að lengd. Langreyðar eru straumlínulaga með fagurmótað oddmjótt höfuð og athugul dimmleit augu. Langreyðar, líkt og svo margar hvalategundir, hafa tignarlega sporðblöðku sem þær lyfta þó ærið sjaldan úr hafi þegar þær kafa – en þegar langreyðar hefja sporðblöku sína upp yfir hafflötinn þá er ekki fegurri skúlptúr að finna ofan sjávarborðs. Lífsskeið langreyða er almennt 80-90 ár en elsta langreyður sem vitað er um var 114 ára gömul. En hvað segja vísindin okkur um félagshæfni þessara merkilegu dýra? Það hefur löngum verið ljóst að langreyðar eru mikil félagsdýr sem búa að eigin samfélagsgerð og tungumáli. Þær halda sig oft saman í smáum hópum, yfirleitt 2-7 saman í hóp. Innilegustu samskipti langreyða eru millum móður og afkvæmis líkt og gjarnt er með spendýr. Samkvæmt viðmiðum Alþjóðlegu náttúrverndarsamtakanna IUCN eru langreyðar skilgreindar sem berskjölduð tegund. Hérlendis er gjarnan vísað til þess að langreyður við Ísland sé ekki í útrýmingahættu, sem rímar ekki við þá staðreynd að hún er farhvalur og almennt talin í útrýmingarhættu á jörðinni, og er meðal annars á lista yfir dýr í útrýmingarhættu hjá the Endangered Species Act, óháð svæðum.
Ágæti lesandi, nú vík ég í örlitla stund frá langreyðinni og held á önnur og víðfeðmari mið; vík orðum mínum að mikilvægi hafsins. Hafið gegnir grundvallarhlutverki í tengslum við heilbrigði lofthjúps jarðar, líkt og loftslagsrannsóknir hafa kristallað. Vísindamenn áætla að allt að 80% súrefnis jarðar sé framleitt í hafinu. Hvalir eru gríðarlega mikilvægur hlekkur í þeirri hringrás sem fólgin er í vistkerfi hafsins og um leið vistkerfi jarðarinnar í heild. Líffræðilegur fjölbreytileiki er forsenda heilbrigðs vistkerfis. Sérfræðingar hafa bent á mikilvægi þess að menn hlúi að hvalastofnum því þeir gegna á marga vegu lykilhlutverki við að viðhalda nauðsynlegu jafnvægi í vistkerfi hafsins, sem um leið spornar gegn neikvæðum loftslagsbreytingum. Hvalir dreifa næringarefnum um höfin sem tryggja vöxt plöntusvifs sem bindur kolefni í ríkum mæli. Annað dæmi um slíkt hlutverk hvala í vistkerfi sjávar felst í þeim eiginleika þeirra að fanga kolefni. Þegar hvalirnir ljúka lífsskeiði sínu þá sökkva þeir niður á hafsbotninn þar sem kolefnið skilar sér í botnlögin og er bundið þar allt upp í hundruði ára. Þegar jafnvæginu í hafinu er riðlað um of af mannavöldum þá skerðist heilbrigði vistkerfisins til sjávar og lands. Á okkar tímum er ljóst að við erum komin á fremsta hlunn með að spilla vistkerfi jarðar um of. Reyndar er það tjón orðið slíkt að loftslagssérfræðingar tala um að við höfum um það bil 10 ár til að bæta úr umgengni okkar ef ekki eigi að hljótast af varanlegur skaði. Skaði sem valda myndi því að veröldin yrði aldrei söm til búsetu manna og annarra dýra. Tíminn er að renna okkur úr greipum. Vegna þess þarf að grípa til allra þeirra aðgerða sem völ er á sem hindrað geta tjón á náttúrunni af mannavöldum.
Hafið er eins og áður segir grundvallarþáttur í tilvist lífríkis jarðar – að segja má lungu jarðar. Því er svo mikilvægt að Íslendingar, umkringdir Norður-Atlantshafinu, umgangist það haf sitt af lífsnauðsynlegri varúð og fyrirhyggju á þessum mestu vátímum mannkynssögunnar. Eitt af því sem þjóðir hafa sammælst um til að vernda lífríki hafsins, er að leggja af hvalveiðar. Þar að baki liggja vísindaleg rök sem ríma við það hlutverk sem hvalir gegna í vistkerfi sjávar og eðlileg virðing fyrir lífi þessara þróuðu dýra. Í gegnum aldirnar hafa menn víða um veröld gengið hart fram í hvaladrápi, svo mjög að sumir hvalastofnar eru enn í dag á barmi útrýmingar, líkt og Íslands-sléttbakurinn er gott dæmi um. Í þessu sambandi er þarft að minna á þá staðreynd að það tekur mjög langan tíma að vinda ofan af ofveiði á hvölum, því hvalir kynþroskast seint, aukinheldur sem þeir ganga lengi með afkvæmi sín og eru lengi að koma þeim á legg. Af þeim sökum hvílir rík ábyrgð á nútímafólki að ekki sé hróflað við hvalastofnum á okkar víðsjárverðu tímum. Í þessu samhengi þá er ljóst að sú spurning brennur á mönnum: Hvað valdi því að Íslendingar skuli á árinu 2022 stunda veiðar á langreyðum? En fyrir liggur að slíkar stórhvalaveiðar muni hefjast í næsta mánuði hér við land. Áður en ég velti þeirri sorglegu staðreynd nánar fyrir mér, þá er við hæfi að víkja stuttlega að forsögu hvalveiða við Ísland, sem lengst af var stunduð af erlendum aðilum.
Heimildir um hvalveiðar Íslendinga allt frá landnámi eru strjálar en þær sýna að allt fram á 20. öld hafi hvalveiðar Íslendinga jafnan verið mjög litlar að umfangi og á köflum engar. Hvalveiðar við strendur Íslands hófust fyrir alvöru með komu Baska í byrjun 17. aldar. Bandaríkjamenn, Hollendingar og Danir reyndu svo fyrir sér í hvalveiðum hér við land á árabilinu 1863-1872. Síðan hófu Norðmenn veiðar á hval við Ísland með útgerð frá Íslandi á tímabilinu 1883-1915, en það tímaskeið er gjarnan kallað norska hvalveiðitímabilið. Sú rányrkja Norðmanna hjó risastórt skarð í hvalastofna við Ísland, þar með talið hjá langreyði. Hvalveiðisaga Norðmanna á Íslandi minnir ískyggilega á þá eyðileggingarslóð sem Norðmenn hafa á okkar tímum hafist handa við að ryðja í náttúru Íslands með sjókvíaeldi á laxi, með liðsinni Vinstri grænna og annarra stjórnarflokka. Skutlar Norðmanna gerðu nær út af við hvalastofna við Ísland, en nú er það erfðablöndun frá norskum eldislaxi sem og laxalús og sjúkdómar frá því eldi, sem ógna tilvist villtra íslenskra laxa.
En nú skal vikið aftur að hvalveiðum hér við land á liðinni öld. Árið 1915 setti Alþingi lög er bönnuðu hvalveiðar við Ísland. Norðmenn héldu þó áfram uppteknum hætti og stunduðu hvalveiðar við Ísland frá 1929-1934. Íslendingar og hvalir lifðu hinsvegar í sátt og samlyndi í 20 ár uns hvalveiðar Íslendinga hófust að nýju árið 1935, en þær veiðar stóðu í 4 ár til ársins 1939. Síðan gerist það næst í þeim efnum að árið 1948 hefur starfsemi í Hvalfirði, hvalveiðistöð Hvals hf. Sú starfsemi grundvallaðist á veiði á langreyði, en lengst af einnig á veiði á búrhval, steypireyði og sandreyði sem enn í dag eru að súpa seyðið sökum ofveiði á þeim hvölum á veraldarvísu. Árið 1986 bannaði Alþjóðahvalveiðiráðið allar veiðar á hvölum. En Íslendingar sem voru aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu, héldu engu síður áfram veiðum á hvali í vísindaskyni til 1989. Árið 1992 sagði Ísland sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og stofnaði eigið ráð í samráði við hvalveiðiþjóðirnar Færeyinga, Grænland og Norðmenn, sem kallast Norður Atlantshafssjávarspendýraráðið, en Rússar og Japanir áttu einnig sína fulltrúa á fundum ráðsins. Árið 2002 gengu Íslendingar aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið. Íslendingar hófu þó aftur atvinnuveiðar á stórhvölum árið 2006, með vísun í þann fyrirvara sem Íslendingar gerðu við samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þar gengu Íslendingar gegn samþykktum æðsta alþjóðlega ráðsins sem fjallar um hvalveiðar, auk þess sem Íslendingar gengu með beinum hætti gegn alþjóðlega sáttmálanum CITES, sem er alþjóðlegur samningur varðandi kaup og sölu á dýrum og plöntum sem eru í útrýmingarhættu – en Íslendingar gerðust aðilar að þeim samningi árið 2000. Slíkir fyrirvarar Íslendinga gagnvart hvalveiðum eru í mínum huga ámóta rökréttir og ef aðrar aðildaþjóðir CITES sem fóstra fíla og nashyrninga í útrýmingarhættu, myndu veiða þau dýr og selja fílabein og nashyrningshorn– en engu að síður vitna til þess að í öllum öðrum atriðum færu þær þjóðir eftir viðmiðum CITES. Vinsældir Íslendinga fóru dvínandi á alheimsvettvangi sökum afstöðu þeirra til hvalveiða, og í því ljósi ákváðu Íslendingar að endurnýja ekki veiðikvótann fyrir árin 2007 og 2008. Síðan gerðist það að þáverandi sjávar- og landbúnaðarráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson endurnýjaði veiðiheimildina til hvalveiða til 5 ára, nokkuð sem átti eftir að hafa neikvæð áhrif á ímynd Íslands og samskipti okkar við aðrar þjóðir, þar með talin Bandaríkin. Árið 2014 beindi Obama forseti Bandaríkjanna orðum sínum til íslenskra ráðamanna í ávarpi sínu til Bandaríkjaþings. Þar bað hann íslensk stjórnvöld að virða CITES samninginn um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu og jafnframt óskaði Obama þess að hvalveiðiríkið Ísland yrði þess í stað hvalaskoðunarríki. En allt kom fyrir ekki, veiðileyfi Hvals hf. var endurnýjað á ný árið 2014 til ársins 2018. En þess ber að geta að á árunum 2006-2018 voru 852 langreyðar drepnar við Ísland. Veiðileyfi Hvals hf. var aftur endurnýjað árið 2019-2023 og fyrirtækinu var þá veittur mun meiri hvalveiðikvóti en áður. Það sem vekur furðu er að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stóð að baki endurnýjuninni 2019-2023; ríkisstjórn sem leyfði veiðar á allt að 2.130 hvölum, og í því ljósi er stjórnarflokkur Vinstri grænna alls ekki grænn á að líta. Hvalveiðar við Ísland eru stundaðar af fyrirtæki sem er í eigu eins manns, fyrirtækis sem virðist eyða meiri vinnu í að finna markaði fyrir illseljanlegar hvalaafurðir heldur en að veiða langreyðarnar sjálfar. Fjárhagslegur gróði af því að leggja hvalveiðar niður er margfaldur á við að stunda hvalveiðar á Íslandi vegna neikvæðra áhrifa hvalveiða á efnahag Íslands, ekki síst á ferðamannaiðnað okkar og vöruútflutning.
Þrátt fyrir að stjórnvaldsákvarðanir Íslendinga hafi vegið að tilvist hvala við Ísland, þá má ekki gleyma þeim aðilum sem hafa lagt sig í framkróka við að vernda hvali við Ísland. Paul Watson dýraverndunarsinni og samtök hans Sea Shepherd Conservation Society, sem útleggja mætti á íslensku sem hirðar hafsins, hafa um langt skeið lagt sín lóð á vogarskálar verndunar hvala við Ísland. Af öðrum náttúruverndarsinnum sem hafa lagt hvölum lið hér við land kemur fyrstur upp í hugann Ole Anton Bieltvedt, stofnandi og formaður Jarðarvina, félagasamtaka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd, sem rak tvö sakamál gegn forráðamönnum Hvals hf. vegna brota þeirra í starfssemi sinni.
Á árinu 2022 gengur ekki upp að íslenskir ráðamenn séu ennþá að ræða það hvort að hvalveiðar við Ísland henti Íslendingum fjárhagslega eða ekki, með vísun í endurnýjun hvalveiðileyfanna árið 2024. Slíkir þankagangar eru fjarstæðukenndir nú þegar helstu sérfræðingar heimsbyggðarinnar, á borð við hinn heimsþekkta sjávarlíffræðing Sylvia Earle, eru sammála um að hvalveiðar eigi að heyra fortíðinni til. Íslendingar eiga einungis einn raunhæfan kost varðandi umgengni sína við hvali hér við land; að hætta hvalveiðum og hefja þess í stað hvalvernd. Með því að vernda langreyðar, næst stærsta dýr veraldar, þá myndum við verða samstíga öðrum þjóðum í þeim tilgangi að vernda berskjaldaðar langreyðar; tarfana, kýrnar og kálfana. Eins og staðan er núna munu veiðar Hvals hf. á langreyðum hefjast á fyrri hluta júní. Það gefur þér, lesandi góður, rúmlega mánuð til að mótmæla stórfelldum glæp gagnvart náttúru vorri. Ætlum við Íslendingar að vera þjóð á meðal þjóða í náttúruvernd, eða ætlum við að ganga gegn alþjóðlegum viðmiðum náttúruverndar og sitja eftir sem siðlaust eyland.
Megi langreyðar synda óáreittar við Ísland árið 2022 og um ókomna tíð.