„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir,“ segir Björn Halldórsson pistlahöfundur Víðsjár.


Björn Halldórsson skrifar:

Ég man nokkuð skýrt eftir fyrsta skiptinu sem einhver kallaði mig karl. Sá sem mælti var lítill strákur sem ég mætti á göngustíg. Hann hrópaði: „Passaðu þig á karlinum!“ til vinar síns, sem var að labba aftur á bak fyrir framan hann. Ég hef verið svona 17 ára, og þótt ég hafi alla ævi verið meðvitaður um að ég var töluvert stærri en flestir jafnaldrar mínir var mér samt verulega misboðið. Mér fannst ég enn of ungur til vera karl. 

Þetta hefur verið á svipuðum tíma og stóra kennaraverkfallið, aldamótaárið 2000. Þá var ég að byrja í framhaldsskóla, og foreldrum mínum leist illa á að ég hæfi skólagönguna á því að hanga heima og maxa high score-ið mitt í Tony Hawk Pro Skater 2, svo það var ákveðið að redda mér vinnu sem fyrst. Pabbi talaði við félaga sinn sem átti dekkjaverkstæði, þar sem vantaði alltaf mannskap á haustin í vetrardekkjavertíðina. Þar vann ég með alvöru körlum, og ég sá umsvifalaust að ég var ekki eins og þeir. Ég gerði þó mitt ýtrasta til að halda í við þá, hlæja og segja brandara og kveinka mér ekki, ekki einu sinni í einni hasartörninni þegar einhver sendi bílalyftuna upp áður en ég náði að kippa að mér hendinni eftir að hafa komið stuðpúðunum fyrir. Sem betur fer var brugðist hratt við þegar ég rak upp gól og ég hélt fingrunum – þótt enn votti fyrir öri þvert yfir hnúa hægri handar. Ég lærði margt gott af körlunum; að segja sögur og leggja hart að mér í vinnu, og hvernig maður gat stundum náð orðinu í háværum hóp karla. Efalaust lærði ég einhverja ósiði líka, og að sjálfsögðu lærði ég allt sem þarf að vita til að skipta um dekk – sem jafnvel á okkar upplýstu tímum virðist teljast til ákveðinnar grunnþekkingar sem ætlast er til að karlmenn búi yfir. Engu að síður fannst mér ég ekki falla undir þetta stóra orð: karl. 

Það hafði lítið breyst nokkrum árum seinna, þegar ég sneri heim úr BA-námi í bókmenntum og fékk vinnu á starfsvettvangi þar sem ég átti eftir að ílengjast næstu árin; í bókabúð í miðbænum. Bókabúðin var töluvert blandaðri vinnustaður en dekkjaverkstæðið. Bókmenntagráðan mín dugði til að redda mér stöðu í erlendu deildinni, þar sem nánasti samstarfsmaður minn var kona sem mér þótti rammfullorðin þá en var efalaust yngri en ég er í dag. Við töluðum mikið um bækur í vinnunni og mæltum með titlum handa hvort öðru – þótt ég minnist þess ekki að hafa verið sérstaklega duglegur að eltast við meðmæli hennar. Það var svo margt annað sem ég hafði að lesa. Hún tók hins vegar eitt sinn heim með sér skáldsögu sem ég hafði reifað við hana. Þegar ég spurði hana síðan hvernig henni hefði fundist bókin, setti hún upp svip og sagði: „Æ, mér fannst hún reyndar svolítið karlaleg.“ 

Karlaleg. Ég hafði aldrei heyrt það orð notað um skáldsögu, og skildi í sannleika sagt ekkert hvað hún átti við. Bókin var spennandi og skemmtileg og hafði hlotið Pulitzer-verðlaunin. Eftir því sem ég best sá var ekkert við hana sem mér þótti sérstaklega karlalegt. Jú, hún var svo sem skrifuð af karli, og aðalsöguhetjurnar voru vissulega karlar, en það var einnig ein veigamikil kvenpersóna í verkinu, og sagan var merkilegri og átakanlegri en svo að mér þætti hægt að afskrifa hana einfaldlega sem „karlalega“. Ég veit ekki hvort ég mælti með fleiri bókum fyrir samstarfskonu mína eftir þetta. Við vorum jú með ólíkan smekk, ekkert athugavert við það. 

Engu að síður snerist stór hluti af starfi mínu í búðinni um að mæla með bókum við gesti og gangandi; að tína úr hillum mínar uppáhalds bækur og tala fólk inn á að gefa þeim séns. Þetta gerði ég næstu árin, allt þar til ég gat ekki neitað því lengur að ég hafði meiri áhuga á að skrifa bækur en að selja þær, sagði upp og henti mér aftur út í fjárhagslega óvissu námslána og skólagjalda. Ég komst inn í meistaranám í ritlist erlendis – slíkt var ekki í boði á Íslandi í þá daga. Kennarinn minn þar var kona. Hún kenndi okkur að rýna í bækurnar sem við lásum saman, hugsa um fyrirætlanir höfundanna og hvað lægi að baki orðavali þeirra. Í tímum hjá henni fór ég í fyrsta sinn að velta fyrir mér ákvörðunum sem ég tók í mínum eigin texta; ákvörðunum sem þangað til höfðu verið eðlislægar og sjálfgefnar og voru oftast teknar á blaðsíðunni jafnóðum. Í fyrsta sinn fór ég líka að pæla í hlutum eins og kynjuðum fornöfnum og hvaða áhrif þau hefðu á upplifun mismunandi lesenda af textanum mínum. (Ég pældi ekki mikið í þeim en ég pældi samt í þeim.) 

Einn mest spennandi hluti námsins sneri að því að á öðru ári átti ég að fá úthlutað mínum eigin ritlistarhópi sem ég myndi fylgja í gegnum leslista sem ég hafði sett saman sjálfur. Við eyddum miklum tíma þá önnina í að undirbúa kennsluáætlanirnar okkar, og ég tíndi saman allt það besta sem ég þekkti eftir öll mín ár sem iðinn lesandi. Listinn sem ég setti saman var þaulhugsaður, með valda kafla úr bókum eftir hina ýmsu höfunda sem hver og einn átti að sýna fram á mismunandi áherslur og tækni sem nemendur mínir gætu lært af og nýtt sér í eigin skrifum. Þegar kom að því að fara yfir leslistann með kennaranum mínum sendi hún mér kankvíst bros og spurði hvort ég hefði leitt hugann að því að meira en helmingur nemendahópsins míns væru konur? Ég kinkaði ósjálfrátt kolli, án þess að skilja hvað hún var að fara. Það var þá sem hún benti mér á að á listanum sem ég hafði afhent henni voru eingöngu karlar, og stakk upp á að kannski væri tilefni til að bæta inn nokkrum kvenhöfundum til að breikka vettvang kennslunnar og ná betur til nemendahópsins. 

Ég tók umsvifalaust undir með henni og dauðskammaðist mín fyrir þessa augljósu gloppu sem mér hafði yfirsést. En þegar ég settist yfir leslistann um kvöldið tóku að renna á mig tvær grímur. Ég neyddist til að horfast í augu við staðreynd sem ég hafði aldrei áttað mig á áður: Ég las ekki konur. Á meðal allra þeirra hundraða höfunda sem ég hafði lesið um ævina var einungis að finna handfylli af konum. Fyrir utan klassíska höfunda á borð við Jane Austen og Brontë-systurnar, sem ég hafði lært að meta í bókmenntanáminu, voru flestar bækurnar sem ég hafði lesið eftir konur annað hvort barnabækur sem ég hafði gleypt í mig í æsku eða bækur eftir höfunda sem ég hafði ekki uppgötvað fyrr en seinna að væru konur. (Sem er kannski ekki að undra þar sem markaðsrannsóknir í hinum enskumælandi útgáfuheimi hafa lengi sýnt að karllesendur eru tregari til að taka séns á bókum eftir til dæmis Joanne Kathleen Rowling eða Phyllis Dorothy James heldur en JK Rowling og PD James.) 

Það hljómar fáránlega að segja það í dag, en ég kom gjörsamlega af fjöllum við þessa uppgötvun. Ég hafði alltaf talið mig vera einstaklega víðlesinn og áhugasaman lesanda, sem las bækur alls staðar að úr heiminum – klassíska og súrrealíska höfunda samhliða glæpasögum og fantasíum – og ég var alltaf tilbúinn að rífast ef fólk talaði niðrandi um teiknimyndasögur eða reifara eða aðrar jaðarbókmenntir. Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir. 

Mér tókst að vinna nýja kennsluáætlun í flýti og komast klakklaust í gegnum hana, en eftir þetta hef ég reynt að veita því meiri athygli hvaða bækur það eru sem rata inn á borð til mín. Ekki til að þvinga inn tilteknar bækur sem falla í tiltekna flokka, heldur frekar til að gæta þess að loka ekki ósjálfrátt á bækur sem eru færar um að opna mér sýn á heiminn sem er mér framandi. Því að það er í raun meginástæða þess að ég les skáldskap – ástæða þess að ég hef alltaf lesið skáldskap: Til að fá tækifæri til að upplifa heiminn frá öðru sjónarhorni en mínu eigin.