„Það kom fyrir, er Bakkus var kominn of mikið í spilið, að þeir [vermennirnir] brutu allt og brömluðu inn í herberginu og þrifu þá það, sem næst var hendi til að kasta.... Það var oft erfitt, þegar böll voru og kenderí. Þá þorði maður ekki að sofa nema í fötunum og oft sváfum við saman tvær ráðskonur til halds og trausts hvor annarri.“ Sagnfræðingurinn Dalrún Kaldakvísl heldur áfram að fjalla um konur fyrri alda í Víðsjá.
Dalrún Kaldakvísl skrifar:
Þegar starfsheitið ráðskona kemur til tals þá koma ráðskonur á sveitabæjum öðrum fremur upp í huga fólks en ráðskonur sem starfað hafa utan veggja sveitaheimila í aldaraðir vilja gleymast. Í þessum útvarpspistli beini ég sjónum mínum að sögu ráðskvenna sem störfuðu utan sveitaheimila í gegnum aldirnar. Þannig gefst hlustendum tækifæri á að öðlast smá innsýn í sögu þeirra ráðskvenna sem og framþróun ráðskonustarfsins utan veggja sveitaheimilanna. Upplýsingarnar sem hér er byggt á grundvallast á gagnasöfnun sem ég vann að samhliða doktorsrannsókn minni á sögu ráðskvenna á sveitaheimilum á Íslandi sem byggist að miklu leyti á viðtölum mínum við fyrrum ráðskonur. Í doktorsrannsókn minni eru ráðskonur á sveitabæjum í forgrunni en í pistli þessum er umfjöllunarefnið ráðskonur sem störfuðu utan sveitabæjanna.
Frásögn þessi víkur fyrst að ráðskonum sem störfuðu í útibúum sveitaheimilanna í gamla bændasamfélaginu; ráðskonum í selum og verum. Sel voru rekin vegna fráfæranna á sumrin og tíðkuðust allt frá landnámi og fram eftir 19. öld. Selráðskona var starfsheiti kvenna sem stjórnuðu selbúinu og báru ábyrgð á mjólkurvinnunni sem fór fram í seljunum. Búverk selráðskvenna kröfðust sérþekkingar, enda var seljabúskapur sértækur meðal annars vegna þeirra knöppu aðstöðu sem selin buðu upp á. Auk mjólkurvinnslunnar sem hvíldi á herðum selráðskvenna þá sinntu þær líka tilfallandi tengdum verkefnum s.s. undirbúningsverkum fyrir selveruna, umsjón með störfum selfólksins, matartilbúningi fyrir selfólkið, heyvinnu, umönnun barna, selflutningi mjólkurafurða á bæina og alloft mjöltun á fénaði sem var mikil stritvinna og einatt á herðum kvenna. Vegna þeirrar staðreyndar að selráðskonur voru gjarnan allt í öllum störfum í selinu, þá er stundum erfitt að greina á milli verka selráðskvenna og verka annarra kvenna sem gátu komið við sögu. Án þess að það sé algilt þá benda heimildir til þess að vinnukonur, unglingar og gamalmenni hafi alla jafnan gengið undir almennari starfsheitum á borð við starfsheitið selkonur. Á meðan húsfreyjur, ráðskonur og ekki síst heimasætur, hafi fremur sinnt hlutverki selráðskonunnar. Heimildir sýna að starf selráðskonunnar gat þjónað sem undirbúningur fyrir húsmóðurstarfið í tilfelli ungra kvenna. Þrátt fyrir að selstörfin hafi verið erfið þá þótti seljabúskapurinn í blíðu sumarsins tilbreytni frá hversdagslífinu á sveitaheimilinu.
Vinnuvettvangur selráðskvenna var gjarnan framandgerður. Ýmsar þjóðsagnir eru til um sel og selfarir sem hverfast um selráðskonur sem eru einar í selinu. Selráðskonur voru í sögunum sagðar sænga hjá huldumönnum og útilegumönnum, og jafnvel bera börn sín út. Slíkar sagnir gefa til kynna að ugg hafi sett að mönnum við aukið frelsi kvenna í seljum og þær sagnir nýttar til að undirstrika alvarleik þess ef kona fer út af spori hefðarinnar.
Selstöður í íslenskum landbúnaði liðu að mestu undir lok þegar leið á 18. öldina en var þó ástundaður áfram. Um aldamótin 1900 spruttu upp rjómabú, arftakar seljanna, líkt og sagnfræðingurinn Anna Sigurðardóttir kallaði rjómabúin. Í rjómabúunum báru rjómabústýrur, líkt og selráðskonur, meginábyrgð á framleiðsluþættinum. Rjómabústýrustéttin er sérlega áhugaverð enda ein allra fyrsta starfsstétt kvenna utan sveitabæja hérlendis. En sú kvennastétt var þó skammæ og leið undir lok um miðbik 20. aldarinnar.
Frásögn mín víkur næst að ráðskonum sem störfuðu í verum fyrr á öldum. Ver var sá staður þar sem sjómenn bjuggu er þeir gerðu út til fiskveiða utan færis sveitabæjanna. Ólíkt ráðskonustörfum í seljum og rjómabúum sem hverfðust um framleiðsluþáttinn, þá byggðust ráðskonustörf í verum á þjónustuþættinum öðru fremur. Helstu störf ráðskvenna í verum fólust í að þjónusta skipshafnirnar en verbúðaráðskonur unnu yfirleitt ekki við fiskverkun nema um það væri sérstaklega samið. Ráðskonur í verum önnuðust alla jafna eina skipshöfn (6 manns) eða tvær skipshafnir (12 manns) ef skipshafnirnar dvöldu í sömu verbúð.
Ráðskonur í verum þurftu að aðlagast hinu karllæga umhverfi sem verin voru svo vitnað sé í eina fyrrum verbúðaráðskonu sem sagðist hafa lært í verinu að; „baka brauð og brúka kjaft.“ Starfsumhverfi ráðskvenna í verum í gamla bændasamfélaginu var í senn dvalar- og vinnustaður þeirra. Aðbúnaður á sveitaheimilum landsins var misjafn, en allur aðbúnaður í verum var hins vegar af lakara taginu. Ráðskonurnar sváfu á sama lofti og vermennirnir og þurftu gjarnan að búa og vinna við bágar aðstæður, svo ég vitni í orð annarrar fyrri tíma verbúðaráðskonu sem sagði:
„Það kom fyrir, er Bakkus var kominn of mikið í spilið, að þeir [vermennirnir] brutu allt og brömluðu inn í herberginu og þrifu þá það, sem næst var hendi til að kasta.... Það var oft erfitt, þegar böll voru og kenderí. Þá þorði maður ekki að sofa nema í fötunum og oft sváfum við saman tvær ráðskonur til halds og trausts hvor annarri.“
Allt fram á fyrri hluta 20. aldar voru atvinnumöguleikar kvenna nær einvörðungu bundnir við vinnukonustarfið. Þar af leiðandi var ráðskonustarf í verum eftirsóknarvert starf á meðal kvenna fyrr á öldum. Með því að gerast ráðskonur í verum gátu konur þénað helmingi meira en þær gerðu sem vinnukonur. Ráðkonustarf í verum hentaði einnig fyrir einstæðar mæður, sem auk launanna fengu húsnæði og fæði fyrir sig og börn sín. Störf ráðskvenna í verum liðu ekki undir lok eins og störf selráðskvenna og rjómabústýra, heldur breyttust með tilkomu vélvæðingar í sjávarútvegi.
Þegar kom fram undir aldamótin 1900 fór starfssviðum ráðskvenna sannarlega að fjölga. Í kjölfar þéttbýlismyndunar hófu ráðskonur að starfa á einkaheimilum í bæjum og borg, og sinntu á þeim vettvangi viðlíka starfsskyldum og starfssystur þeirra á sveitaheimilunum; matreiðslu, almennum þrifum og barnapössun. Starfsvettvangur ráðskvenna færðist smá saman út á opinbera sviðið þegar fyrirtæki og stofnanir fóru að ráða til sín ráðskonur. Þá komu til sögunnar ráðskonur í mötuneytum stofnanna ríkis- og sveitarfélaga, hjá vegavinnuflokkum og virkjanabyggingarflokkum svo fátt eitt sé nefnt. Með tilkomu ráðskonustarfa á opinbera sviðinu var meiri áhersla lögð á að ráðskonur byggju að fagmenntun, svo sem ráðskonur sem störfuðu í skólum eða á spítölum eru dæmi um. Á 8. áratugnum var til að mynda stofnuð sérstök ráðskonudeild í Húsmæðrakennaraskólanum og einnig síðar í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað sem hlaut fljótlega nafnið matráðsmannadeild.
Ráðskonur hjá fyrirtækjum og stofnunum höfðu öðru fremur eldhússtörf með höndum. Virðing og vegsemd ráðskvenna sem störfuðu hjá fyrirtækjum og stofnunum réðst fyrst og fremst af hæfileikum þeirra í eldhúsinu. Viðmælandi minn og fyrrum skólaráðskonan Svava Höjgaard sagði: „Það var aldrei sett út á mat hjá mér. Og þarna vann ég í 15 ár en ég hætti að vinna 65 ára.“ Sumar ráðskonur hjá fyrirtækjum og stofnunum sinntu þrifum og þvottastörfum auk eldhússtarfanna, svo sem ráðskonur hjá vinnuflokkum og ráðskonur í veiðihúsum. Ákveðnar væntingar voru gerðar til ráðskvenna sem unnu hjá fyrirtækjum og stofnunum um að skapa heimilislega stemmningu á vinnustöðunum með þjónustu sinni og uppfylla vissa kvenlega ímynd sem er best lýst sem ímynd húsmóður eða ímynd einskonar matmóður. Ráðskonur hjá fyrirtækjum og stofnunum höfðu viss völd og frelsi sem heimilisráðskonur höfðu yfirleitt ekki. Viðmælandi minn Sigríður Hallgrímsdóttir starfaði bæði sem ráðskona á sveitabæ og hjá vegavinnuflokki. Sigríður sagðist hafa rifið kjaft við pétur og pál þegar hún var vegavinnuráðskona, enda réð hún öllu í sínu eldhúsi. En slíkir stjórnunarhættir voru jafnan ekki í boði fyrir ráðskonur sem störfuðu inn á heimilum vinnuveitenda sinna.
Aðstæður á vinnustað ráðskvenna á opinberum vettvangi tóku ekki síst mið af þeim hópum manna sem þær þjónustuðu. Ráðskonur á opinbera sviðinu elduðu að jafnaði fyrir stærri og fjölbreyttari hópa en heimilisráðskonur. Einn viðmælandi minn og fyrrum ráðskona hjá Rafmagnsveitum ríkisins, Ólafía Kristín Sigurðardóttir, eldaði til dæmis um árabil á álagstímum fyrir 30-50 manns sem unnu að byggingu spennistöðva. Vinnuaðstæður ráðskvenna tóku líka mið af eldhúsaðstöðunni, til dæmis störfuðu ráðskonur á vegum vegagerðaraðila fyrst í tjöldum en seinna í vinnuskúrum. Eldhús ráðskvenna sem störfuðu í slíkum skúrum voru færanleg, einskonar farandeldhús því skúrarnir voru iðulega hífðir í heilu lagi upp á vörubíla og keyrðir á næsta áfangastað. Ráðskonur sem voru sífellt að flytjast á milli svæða vegna starfa sinna þurftu því að huga að ýmsu sem aðrar ráðskonur þurftu aldrei að leiða hugann að, líkt og kom fram í viðtali mínu við fyrrum vegavinnuráðskonuna Ástu Ólafsdóttur sem rifjaði upp verklag í tengslum við flutning vinnuskúranna:
„Ég geymdi bara leirtauið í skápunum en passaði upp á að ganga tryggilega frá skáphurðunum. Með því móti gat ég gengið að því óbrotnu á sínum stað þegar skúrinn hafði verið látinn síga á sinn nýja stað.“
Víst er að ráðskonur sem störfuðu fyrir stofnanir og fyrirtæki fengu mun betra kaup en ráðskonur sem störfuðu á einkaheimilum í þéttbýli og dreifbýli. Hluti ráðskvenna sem störfuðu hjá fyrirtækjum og stofnunum bjuggu á vinnustaðnum, og nutu þess þá almennt að fá húsnæði og fæði í kaupbæti, svo sem vegavinnuráðskonur. Ráðskonur sem bjuggu ekki á vinnustaðnum, til dæmis ráðskonur í leikskólum, höfðu sumar hverjar tækifæri á að taka með sér matarafganga heim sem hjálpaði til við þeirra eigin heimilisrekstur, ekki síst í tilfelli einstæðra mæðra. Margar kvennanna sem rætt var við tóku það fram að ráðskonustarf á opinberum vettvangi hafi verið erfiðisvinna og frístundirnar fáar, ekki síst þegar vinnustaðurinn var í senn íverustaður þeirra. Ráðskonur sem unnu fyrir stofnanir og fyrirtæki höfðu færi á því að kvarta undan slæmum kjörum ólíkt ráðskonum á einkaheimilum. Um það gátu viðmælendur mínir vitnað svo sem María Björg Gunnarsdóttir sem sá um að semja um starfskjör fyrir ráðskonur í brúarvinnu en hún sá meðal annars til þess með eftirgangsmunum að allar ráðskonur hjá brúarvinnuflokkum á landinu fengu frystikistu.
Hér lýkur þessum örpistli um ráðskonur sem starfað hafa utan veggja sveitaheimila á Íslandi í gegnum aldirnar. Í því skyni að gera sögu ráðskvenna sem störfuðu utan veggja sveitaheimila betur skil þá er ætlun mín í náinni framtíð að gefa út smá ritling um sögu þeirra kvenna á rafrænu formi í opnu aðgengi; ritling sem meðal annars mun byggja á viðtölum mínum við þær áhugaverðu konur sem sinntu af ráðdeild ráðskonustörfum utan veggja sveitaheimilanna.