Níðstöng með afskornum hrosshausi var reist á landi Skrauthóla á Kjalarnesi í morgun. Ábúendur, sem hafa átt í deilum undanfarin misseri, segjast miður sín og vona að lögregla komist til botns í málinu.

Fréttastofa settist niður með Lindu Mjöll, ábúanda að Skrauthólum 4 í vikunni, eða Sólsetrinu líkt og hún kallar það, til að ræða nágrannaerjur sem þar hafa staðið yfir að undanförnu. Linda rekur nokkurs konar andlegt samfélag, heldur kakóserímóníur og syngur og dansar með fólki hvaðanæva að undir dynjandi trommuslætti. Þá vakti hún athygli í vikunni fyrir tantrahátíðir sem hún heldur á staðnum sem hafa sætt nokkurri gagnrýni. 

„Það er grundvöllur fyrir þessu öllu og ég virði það. Ég virði einnig og á sama tíma að ég er einstaklingur sem er öðruvísi, er að nálgast lífið á annan máta, er að kjósa lífsleið sem hugsanlega ber fram aðra mynd, heimsmynd og kannski get ég byggt brúnna yfir í hinn heiminn betur,” sagði Linda Mjöll í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni, um kvartanirnar á hendur henni og sambýlisfólki á Sólsetrinu.

Merkir bölvun

Það bar hins vegar við annan tón í dag þegar nágrannar Lindu urðu varir við að níðstöng hafði verið reist á landi þeirra. Níðstöng með afskornum hrosshausi, sem samkvæmt heiðnum sið, merkir bölvun. 

„Ég tek þessu sem hótun. Það er bara þannig og það er ekki hægt að skilja þetta neitt öðruvísi,” segir Kristjana Þórarinsdóttir, íbúi við Skrauthóla 4. Kristjana og eiginmaður hennar, Guðni Halldórsson, stunda hestamennsku af kappi og var áfallið í dag því mikið.

„Guðni maðurinn minn er formaður Landssambands hestamannafélaga og hvernig á maður að skilja þetta öðruvísi? Við erum bara hestafólk og ég held að ef einhver kannast við Guðna eða þekkir eitthvað til hans, þá er þetta það fyrsta sem það myndi hugsa - að hann sé hestamaður Það er það sem einkennir hann mest og það er ekkert hægt að skilja þetta öðruvísi en hótun,” segir Kristjana.

 

Brunaði upp í hesthús

Hún óttaðist að þarna hafi verið um að ræða hross frá fjölskyldunni. „Við erum með tvö hross heima, þannig að ég leit út á tún og athugaði hvort þau væru ekki alveg heil, sem þau voru sem betur fer. Og ég byrjaði síðan á að bruna upp í hesthús til að athuga hvort það væri ekki í lagi með öll hross hér.”

Kristjana segist verulega skelkuð og þorir ekki aftur heim til sín eins og sakir standa.

„Mér er bara óglatt. Þannig líður mér með þetta. Þetta er ógeðslegt,” segir hún.

Kristjana tekur fram að hana gruni Lindu sjálfa ekki um ódæðið. Nágrannaerjur þeirra tveggja hafi verið í fjölmiðlum undanfarna daga og að hver sem er gæti staðið þarna að baki.

Þá sé sömuleiðis alls óvíst hverjum nákvæmlega hótunin berist gegn; Kristjönu og fjölskyldu hennar, eða Lindu og sambýlisfólki hennar á Sólsetrinu.

„Þetta getur ekki verið út af einhverjum nágrannaerjum,” segir Linda. „Samtalið hefði getað gerst yfir kakóbolla. Og hver á skilið að fá þessi skilaboð? Ég held að enginn eigi þetta skilið.” 

Lögregla og Matvælastofnun fjarlægðu hræið um hádegisbil og er málið í rannsókn, samkvæmt nýjustu upplýsingum.