Eggert Gunnþór Jónsson sem hefur sætt rannsókn í meintu kynferðisbrotamáli var í byrjunarliði FH-inga í leik þeirra gegn Víkingi í Bestu deildinni í gær. Forseti leikmannasamtaka Íslands segir það mjög óeðlilegt. Framkvæmdastjóri ÍSÍ segir útgáfu reglna um mál sem þessi hafa tafist.

Eðlilegt að menn stígi til hliðar

Eggert hefur að undanförnu sætt rannsókn lögreglu vegna meints kynferðisafbrots. Málið fór frá ákærusviði lögreglunnar á borð héraðssaksóknara undir lok síðasta mánaðar.

ÍSÍ segir að reglur til að taka af allan vafa í málum sem þessum hafi átt að vera tilbúnar í síðasta mánuði. Lagaleg atriði hafi þó tafið það. Andri Stefánsson er framkvæmdastjóri ÍSÍ.

„Við erum að skoða niðurstöðurnar sem komu frá þessum vinnuhóp bara rétt fyrir páska; hvaða aðgerðir getur íþróttahreyfingin gert, hvernig eiga aðilar að bregðast við. Því oft er ekki farið í viðbrögð því fólk veit ekki hvernig viðbrögðin eiga að vera. Við viljum vanda okkur og hafa þetta í lagi þannig að þetta stríði ekki á móti lögum í landinu. En þetta er mjög flókið mál. Og þetta er akkúrat það sem íþróttahreyfingin hefur verið að kalla eftir, að ÍSÍ setji einhverja línu sem félögin geta farið eftir.“

- En eins og í tilfelli sem þessu hjá félagi þegar að leikmaður sætir rannsókn. Eiga ekki bara að gilda sömu reglur um hann og aðra í samfélaginu?

„Manni hefur sýnst það að fólki þyki eðlilegt að menn og konur stígi til hliðar þegar þau sæta svona rannsókn,“ segir Andri.

„Sko fyrir mitt leyti, ef ég tala fyrir sjálfan mig þá finnst mér eðlilegt að þegar að það komu upp svona mál sem vekja þessa óvissu að aðilar stígi til hliðar þegar að svona mál eru skoðuð. En það er undir hverjum aðila fyrir sig að setja þannig reglur.“

Knattspyrnan ætti að horfa til vinnumarkaðarins

Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands, segir að knattspyrnan megi taka sér vinnumarkaðinn á Íslandi til fyrirmyndar í málum sem þessum.

„Ef leikmaður er undir opinni lögreglurannsókn eða rannsókn hjá yfirvaldinu um einhvers konar ofbeldisbrot þá þykir okkur það sjálfsögð og eðlileg krafa að leikmaður sé ekki að spila á meðan að staðan er þannig. “

Hvorki þjálfari liðsins né forsvarsmenn FH hafa viljað tjá sig um málið.