Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, vill bíða niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á sölu Íslandsbanka, áður en ráðist verður í frekari rannsókn á söluferlinu. Hún segir ekki tilefni til þess að fjármálaráðherra víki vegna málsins.

Ákvörðun um að leggja til að Bankasýslan verði lögð niður var tekin í gær.  

„Það er okkar mat að það hafi sýnt sig, í gegnum þessa nýjustu atburði, að þetta fyrirkomulag krefjist endurskoðunar,“ segir Katrín. „Við viljum styrkja þátt Alþingis þegar kemur að því að taka ákvarðanir til að mynda um sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum,“ segir Katrín.

En er ekki verið að kasta Bankasýslunni undir rútuna þegar þetta er mál sem að þið ættuð að bera ábyrgð á? „Við þurfum auðvitað fyrst að horfa á löggjöfina sem snýst um þetta, síðan liggur fyrir að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans eru að rannsaka þessa tilteknu sölu, og ég held að við þurfum að bíða og sjá hvað kemur út úr þeim rannsóknum áður en við tökum ákvörðun um næstu skref.“ 

Kallað hefur verið eftir afsögn fjármálaráðherra vegna málsins. Er það nóg að Bankasýslan víki?  „Ég tel í þessu máli, þá er það Bankasýslan sem fer með framkvæmd málsins,“ segir Katrín. „Með öllum þeim fyrirvörum að við eigum eftir að sjá hvaða niðurstöður koma frá þeim sem eru að rannsaka þetta mál, þá sýnist mér að þau atriði sem eru gagnrýniverð eru framkvæmdaratriðum,“ segir Katrín.

„Þannig að ég held að við þurfum að bíða og sjá hverju þessi rannsókn skilar, en framkvæmdin liggur hjá Bankasýslunni,“ segir Katrín. Hún telur ekki tilefni til stjórnarslita.

Hægt er að horfa á viðtalið við Katrínu í heild sinni hér fyrir ofan.