Töluverð náttúruspjöll hafa verið unnin á Ingólfsfjalli í Ölfusi. Feðgar sem gengu á fjallið í morgun segjast aldrei hafa séð annað eins.
Bárður Jón Grímsson gekk ásamt syni sínum á Ingólfsfjall snemma í morgun. Feðgarnir gengu upp með malarnámunni á fjallið. Þegar þeir voru komnir upp á topp blasti við þeim dapurleg sjón.
„Við komum við auga á þessar stórskemmdir eftir fjórhjól. Við áttuðum okkur ekki á því hvar hjólið hefur nákvæmlega komið upp. Förin liggja alveg eftir öllu fjallinu og það var allt sundurgrafið og skurðir eftir fjórhjólið,“ segir Bárður. Hann segir að erfitt sé að átta sig á hversu langt inn á fjallið þetta nái, gætu jafnvel verið margir kílómetrar sem búið er að skemma.
Hann segist hafa verið orðlaus. Náttúrunni hafi verið mikið raskað enda sé jarðvegurinn afar viðkvæmur á þessum tíma árs þegar frost er að fara úr jörðu. Hann er viss um að förin séu ný - líklegast frá því í gær.
Bárður hefur eytt miklum tíma úti í náttúrunni. Hann segist ekki hafa séð aðrar eins skemmdir eftir farartæki. Hann hefur enn ekki tilkynnt málið en leitaði til lögreglu í morgun en þar var lokað. Bárður ætlar að leita til lögreglu eða Umhverfisstofnunar í vikunni. Hann segir mikilvægt að vekja athygli á slíkum náttúruspjöllum, ef það sé ekki gert sé mun meiri hætta á að slíkt gerist oftar en ella.