Eldgos á eða við Reykjanes á þessu ári er raunhæfur möguleiki að mati Þorvalds Þórðarsonar eldfjallafræðings. Hann telur helmingslíkur á að gos hefjist áður en árið er úti. Verði gos með öskufalli gæti aska lagst yfir höfuðborgarsvæðið, og haft áhrif allt upp í Hvalfjörð og austur fyrir fjall. 

Ef gjósa fer upp úr hafi á Reykjanesi getur það haft alvarlegar afleiðingar.Jarðskjálftahrina hófst suðvestur af Reykjanestá fyrir rúmum sólarhring. Mældust tveir skjálftar yfir þremur að stærð og fjöldi smærri skjálfta í kjölfarið. Önnur hrina varð norðaustur af Reykjanestá fyrir viku og var sú öflugust þeirra sem riðið hafa yfir frá því í desember. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur töluverðar líkur á gosi. Spurning sé einungis hversu kröftugt það verði og hvort gýs í sjó eða á landi.

„Skjálftarnir virðast vera á mjög afmarkaðri svona afmörkuðu belti mjög mjóu belti sem að  líkist kannski ef að maður hugsar til sprungu sprunguvirkni og þetta hefur verið þétt núna síðasta sólarhring og þeir eru grynnri en 8 kílómetrar í efsta hluta stökka hluta skorpunnar."

Skjálftavirkni í þessa veru getur tengst hreyfingu á misgengjum á svæðinu. Hugsanlegt er að sú hreyfing tengist kvikuhreyfingum að sögn Þorvaldar. Jarðhræringarnar nú hafa verið í grennd við Eldey. Eyjan er leifar af gömlum gjóskugíg sem talinn er hafa myndast í eldgosi árið 1226. Það var gjóskugos í sjó og myndaði það Miðaldalagið svonefnda sem teygt hefur sig yfir suðvestur hornið og austur fyrir Fjall.

Þorvaldur Þórðarson segir gjóskufall verða á landi ef sagan endurtekur sig líkt og þegar Miðaldalagið myndaðist í gosi.

„Gjóskufallið þekur stóran hluta af Reykjanesskaga og landinu sennilega alveg upp undir Hvalfjörð og hugsanlega alveg austur fyrir fjall  og svona gjóskuvirkni eða gjóskugos hefur líka áhrif á andrúmsloftið og við erum mjög nálægt flugvellinum ef að það verður gos í Eldey. Það er þá hætt við því að það yrði truflun á flugi á millilandaflugi til Íslands. Það getur haft áhrif á efnahaginn á ferðamannastrauminn og líf okkar almennt."