Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var sáttur með leik íslenska landsliðsins eftir 34 - 26 sigur á Austurríki að Ásvöllum í Hafnarfirði. Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti á HM. Hann úthúðaði hins vegar íslenskum stjórnvöldum eftir leikinn og kallaði það þjóðarskömm að hér skyldi ekki vera þjóðarhöll sem gæti hýst leik eins og þennan.
1.500 áhorfendur troðfylltu Ásvelli í dag og var löngu uppselt á leikinn.
Íslenska liðið var stutt dyggilega áfram og virtist drekka andrúmsloftið í sig. „Þetta var stórkostleg stemning,“ sagði Guðmundur við Einar Örn Jónsson í leikslok og lýsti frammistöðu íslenska liðsins sem fagmannlegri. Vörnin hefði verið áræðin og sóknarleikurinn vel útfærður.
Guðmundur sagðist þakklátur Haukum fyrir að leyfa þeim að spila þennan landsleik á heimavelli þeirra. Því leikurinn hefði verið afar mikilvægur upp á framhaldið, sæti á HM væri lífsnauðsynlegt vegna Ólympíuleikanna 2024.
En svo var komið að þætti stjórnvalda sem fengu falleinkunn hjá íslenska landsliðsþjálfaranum. Og það má vel ímynda sér næstu orð Guðmundar sem hálfleiksræðu yfir liði sem er að leika langt undir getu. „Það er ótrúlega skrýtið fyrir handboltamenn að það sé ekki til þjóðarhöll sem er hæf til að hýsa svona leik,“ sagði Guðmundur.
Hann benti á að íslenska liðið hefði leikandi létt getað spilað fyrir 6.000 áhorfendur í dag en ekki 1.500 því slíkur hefði áhuginn verið. „Það er óskiljanlegt og þjóðarskömm þetta sinnuleysi stjórnvalda. Og það er alveg sama hvaða flokkur á hlut, þeir fara allir undan í flæmingi.“
Það væri til háborinnar skammar að Ísland væri eina þjóðin í Evrópu sem ætti ekki sína þjóðarhöll. „Hvað er að þessari þjóð?,“ spurði landsliðsþjálfarinn sem skoraði á menn að setjast niður og gera eitthvað í þessu málum strax og láta verkin tala.