Forsætisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar, Sanna Marin og Magdalena Anderson, sitja á fundi í Stokkhólmi þar sem staða ríkjanna eftir innrás Rússa í Úkraínu er rædd. Stjórnvöld beggja ríkja íhuga af alvöru að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Afstaða Finna og Svía til NATO aðildar gjörbreyttist á svipstundu við innrás Rússa í Úkraínu. Áður hafði NATO aðild ekki verið á dagskrá.
Skýrsla um kosti í varnarmálum
Finnska ríkisstjórnin kynnti í hádeginu skýrslu um öryggis- og varnarmál, í framhaldinu er búist við að þingið í Helsinki taki ákvörðun um aðildarumsókn. Í skýrslunni eru taldir upp kostir og gallar NATO aðildar Finnlands sagði Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, á sameiginlegum fundi með fréttamönnum í Stokkhólmi fyrir stundu. Í skýrslunni segir að stöðugleiki ykist með NATO aðild.
Náið samstarf Finna og Svía
Sanna Marin lagði áherslu á náið samstarf Finna og Svía í öryggis-og varnarmálum og samstarf við NATO sem hefði aukist eftir að Rússar innlimuðu Krím-skagann árið 2014. Fréttaskýrandi sænska útvarpsins segir að í skýrslu finnsku ríkisstjórnarinnar séu ekki beinar tillögur um hvort landið eigi að sækjast eftir NATO aðild.
Fullyrðir að Jafnaðarmenn vilji NATO aðild
Svenska Dagbladet fullyrðir í dag að leiðtogar Jafnaðarmanna, stjórnarflokksins í Svíþjóð, hafi þegar ákveðið að sækjast eftir NATO aðild. Á fréttamannafundinum með Marin neitaði Magdalena Anderson ekki þessum fréttum en sagði að NATO umsókn yrði rædd innan flokksins á næstu dögum.
Sjálfstæð ákvörðun en náið samráð
Báðar lögðu þær Anderson og Marin áherslu á að hvort ríki um sig tæki ákvörðun en náið samráð yrði á milli ríkisstjórnanna í Helsinki og Stokkhólmi. Ef Finnar og Svíar ákveða að sækja um aðild að NATO er búist við að umsóknir þeirra verði formlega afgreiddar á leiðtogafundi NATO í Madrid í lok júní.