Eftir að styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur var stolið af Snæfellsnesi var hún flutt til Reykjavíkur þar sem hún stendur nú fyrir utan Nýlistasafnið. Tvær listakonur sem síðan hafa nýtt hina stolnu styttu í sitt listaverk segja að ránið sé fullkomlega réttlætanlegt. Nú standi hún á áberandi stað þar sem fólki eigi að gefast kostur á að hugleiða rasíska undirtóna hennar.

Á fimmtudag bárust fréttir af því að bronsstyttu, sem nefnist Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku og er eftir Ásmund Sveinsson, hafi verið stolið af stöpli á Laugarbrekku á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

Styttan er af Guðríði Þorbjarnardóttur sem var í hópi norræns fólks sem fór til Vínlands í kringum árið 1000. Þar eignaðist hún soninn Snorra með eiginmanni sínum Þorfinni Karlsefni. Guðríður kemur fyrir í Eiríks sögu rauða, og Grænlendinga sögu og er fyrsta konan af evrópskum uppruna sem vitað er til að hafi fætt barn í Ameríku. Talað er um Guðríði sem einhverja víðförlustu konu síns tíma. Hún fæddist á Íslandi, giftist á Grænlandi og ól son í Norður-Ameríku. Hún fór til Noregs, reisti sér bú á Íslandi og gekk til Rómar til að fá aflausn synda sinna. Guðríður endaði ævina sem heittrúuð nunna og einsetukona á Íslandi.

Fréttastofu Vísis barst ábending um hvarf styttunnar frá leiðsögumanni, sem var á ferð um svæðið á fimmtudag, og ræddi í kjölfarið við Kristin Jónasson, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, sem einnig var í Guðríðar- og Laugarbrekkuhópnum, sem setti styttuna upp árið 2000. Hann sagði líklegt að stutt væri síðan styttunni hefði verið stolið: „Sárið er hreint. Það myndi ryðga strax. Það virðist sem menn hafi þarna notast við slípirokk.“

Rasískur undirtónn

Lestin hitti fyrir listakonurnar Bryndísi og Steinunni fyrir utan Nýlistasafnið í Reykjavík. Þær nýttu styttuna í nýtt verk sem nefnist Farangursheimild, með undirtitillinn Fyrsta hvíta móðirin í geimnum, og stendur á bílastæði fyrir utan Nýlistasafnið í Marshall-húsinu í Reykjavík. 

Þær Bryndís og Steinunn segja að í styttunni af Guðríði felist rasískur undirtónn og að meðferðin á styttunni í gegnum tíðina beri vott um það. Styttan hafi upprunalega átt að vera minnisvarði um fyrsta hvíta barnið í Ameríku og að það hafi nú verið íslenskt. Stuldur styttunnar og nýtt hlutverk hennar við Nýlistasafnið er því nokkurs konar ádeila á það.

„Guðríður sjálf, við erum ekkert að atast í hennar persónu. Hún fer þarna með fólki frá Íslandi í kringum árið 1000, fer til Grænlands og fer þangað sem nú heitir Ameríka og þau búa þarna í eitt, tvö ár og síðan fara þau aftur til Íslands. Þau eignast þarna barn í Ameríku og það er það sem styttan vísar í, að þetta hafi verið fyrsta hvíta barnið og að það hafi nú verið íslenskt, höfum það á hreinu. Þetta er það sem við erum að díla við í þessari styttu," segir Bryndís Björnsdóttir.

Komin í alfaraleið

Styttuna, sem líklega er fyrsta íslenska styttan af nafngreindri konu, gerði Ásmundur Sveinsson fyrir heimssýninguna í New York árið 1940. Hún sýnir Guðríði standa í stafni skips og á öxl hennar stendur Snorri sonur hennar og veifar kumpánlega. Áratugina áður höfðu íslensku fornsögurnar verið þýddar á önnur mál og meðvitund um Vínlandsferðir norrænna manna orðið útbreiddari. Styttan virðist hafa vakið mikla lukku bæði meðal erlendra og íslenskra álitsgjafa.

Ekki er vitað um afdrif þriggja metra hárrar styttunnar sem send var vestur til Ameríku en frummyndin varð eftir hér á landi. Eftir henni hafa verið gerðar nokkrar afsteypur í seinni tíð. Ein var sett upp í Skagafirði á tíunda áratugnum; Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti gaf páfa eina slíka fyrir einkabókasafn hans; og árið 2000 var sett upp afsteypa við fæðingarstað Guðríðar, Laugarbrekku á sunnanverðu Snæfellsnesi, til að heiðra minningu hennar. 

Bryndís og Steinunn voru spurðar hvort ádeila þeirra réttlætti stuld á styttunni sem var valinn staður á Snæfellsnesi. 

„Já, algjörlega. Þessi stytta á ekkert heima þarna og það er bara mjög mikilvægt fyrir fólk á Íslandi að vera ekki í þessari undantekningu, takast á við rasisma, endurskoða sögunna, velta henni upp. Við drögum þessa styttu, sem hefur verið svona utan sjóldeildarhrings hún er lengst þarna í burtu, og það eru fleiri sem eru ekki alveg í almannasjónlínu. Nú er hún hérna og nú er hægt að takast á um hana," svaraði Steinunn Gunnlaugsdóttir. 


Áður sagði að í viðtalinu hafi Steinunn og Bryndís játað stuldinn á umræddri styttu. Við nánari skoðun kom í ljós að svo var ekki og því hefur textinn verið uppfærður í samræmi við það.