Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna dæma sig sjálf og að hann hafi harmað þau. „Þetta er bara mjög óheppilegt atvik.“ Bjarni var ekki reiðubúinn til að segja hvort Sigurður Ingi ætti að segja af sér eða ekki. „Það er alfarið mál þess sem á í hlut hverju sinni að leggja mat á það og ég ætla ekki að leggja neitt á mig til þess að hjálpa til við það.“

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, ræddi við ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar þeir komu út af ríkisstjórnarfundinum í morgun.

Bjarni sagði að mál Sigurðar Inga hefði ekki verið rætt á fundinum. Sjálfur hefði hann engar athugasemdir við framgöngu Sigurðar í stjórnmálum. „Ég hef átt við hann gott samstarf og ég sé að hann hefur tekið þessu máli alvarlega.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, sagðist ekki vilja tjá sig um ummæli Sigurðar Inga að öðru leyti en því að þau væru alvarleg. Hún vildi ekkert láta eftir sér hafa hvort hún teldi að Sigurður gæti setið áfram sem ráðherra vegna málsins.