„Svo virðist sem neysla orkudrykkja sé mun tengdari skammdegisþunglyndi heldur en kaffidrykkja,“ segir Yvonne Höller, prófessor við sálfræðideild Háskólans á Akureyri.

Yvonne og félagar hennar við skólann hafa undanfarin misseri rannsakað skammdegisþunglyndi út frá ýmsum hliðum. Síðan í sumar hafa þau verið að skoða hvort tengsl séu milli matahegðunar og árstíðabundinna skapsvefilna. 

Munur á kaffi og orkudrykkjum

„Núna erum við að skoða hvernig fólk sem ekki finnur fyrir skammdegisþunglyndi borðar á sumrin,“ segir Yvonne. Það hefur nefnilega verið sýnt fram á að þeir sem finni fyrir skammdegisþunglyndi séu sólgnir í sætindi og kolvetni þótt ekki sé vitað hvort kemur á undan, eggið eða hænan þar. 

„Ef þetta er einkenni hugsðum við með okkur að það væri kannski hægt að koma í veg fyrir skammdegisþunglyndi með hollu mataræði,“ segir Yvonne. Fyrstu niðurstöður benda ekki til þess en Yvonne segir að þau hafi þó komist að ýmsu áhugaverðu, til dæmis í sambandi við koffíndrykki. 

„Eftir því sem þú drekkur meira af orkudrykkjum er líklegra að þú finnir fyrir depurð á veturna. Þessu er öfugt farið með kaffi. Kaffi virðist ekki gera fólk eins útsett fyrir skammdegisþunglyndi,“ segir Yvonne. Það er þó ekki ljóst hvort það séu orkudrykkirnir sem geri fólk dapurt eða hvort depurðin geri fólk einfaldlega sólgnara í slíka drykki. 

Tíðni skammdegisþunglyndis gæti hafa aukist

Yvonne, sem er fædd á norður Ítalíu, segir árstíðabundnar skapsveiflur áhugavert viðfangsefni. Eldri rannsóknir hafa sýnt fram á að skammdegisþunglyndi er sjaldgæfara á Íslandi en á öðrum stöðum á norðlægum breiddargráðum. Færð hafa verið rök fyrir því að þetta sé genatengt. Að við höfum þróað með okkur einhverskonar viðnám gegn skammdegisþunglyndi með því að búa hérna öldum saman. 

„Mín tilgáta hefur alltaf verið sú að þetta geti líka verið menningartengt. Það var ekki til siðs að kvarta. Núna gerir fólk það og við getum farið til sálfræðings sem tíðkaðist ekki fyrir 30 árum síðan,“ segir Yvonne. Hún bendir á að tölur um tíðni skammdegisþunglyndis á Íslandi séu orðnar meira en tuttugu ára gamlar og margt hafi breyst á undanförnum árum. 

„Það er mögulegt að á síðustu árum hafi orðið aukning og að fleiri finni nú fyrir skammdegisþunglyndi en áður. Samfélagið er líka orðið alþjóðlegra. Það eru margir innflytjendur á Íslandi,“ segir Yvonne.