Ný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2027 birt í dag. Engum fjármunum er úthlutað til bygginga þjóðarleikvanga, þrátt fyrir fögur fyrirheit ráðamanna síðustu misseri. Ráðherra íþróttamála segir það þó ekki segja alla söguna.
Íþróttaáhugafólk rak í rogastans í dag þegar í ljós kom að engum fjármunum var úthlutað til nýrra þjóðarleikvanga á fjármálaáætluninni. Ásmundur Einar Daðason er ráðherra íþróttamála og hann hafði áður talað um að þjóðarleikvangar myndu rísa á kjörtímabilinu.
„Minn hugur stendur nú til þess að á þessu kjörtímabili geti maður farið á heimaleiki á nýjum þjóðarleikvöngum sko.“
Ásmundur Einar segir verkefnið ekki komið á þann stað að hægt sé að setja þá á áætlun því ekki liggi fyrir hver þörfin sé. Stýrihópur er starfandi og hann mótar næstu skref, sem hann vonast til að þau skref verði kynnt öðru hvoru megin við helgina. Í kjölfarið verði hægt að fara í viðræður við borgina og velta málinu áfram, og hvergi verði slegið af.
„Ég segi nú að menn eigi ekki að lesa of mikið í þetta. Það er algjörlega skýrt að þetta er í stjórnarsáttmála og það er ávarpað í fjármálaáætlun að þegar endanlegt fjármagn liggur fyrir sem þarf til verksins þá verður það sett inn í áætlanir ríkisins, og fjármálaáætlun er endurskoðuð árlega.“
Þannig að þetta þýðir ekki að þjóðarleikvangar hafi verið slegnir út af borðinu eða frestað?
„Fjarri því, fjarri því. Við höfum, eins og ég sagði, fyrsta mál mitt í ríkisstjórn var skipun sérstaks stýrihóps sem hefur verið að halda utan um verkefnið. Hann er að skila af sér núna svona milli-tillögu, skulum við segja, öðru hvoru megin við helgina og er þar af leiðandi að marka þá verkefnið áfram.“
Þú sagðir í viðtali á Vísi í byrjun desember að þú vonaðist til að geta mætt á heimaleiki á nýjum þjóðarleikvöngum á þessu kjörtímabili, er það enn þá stefnan hjá þér?
„Það er enn þá stefnan og það hefur ekkert breyst.“